Áhrif af skattstefnu ríkisstjórnarinnar

Mánudaginn 04. nóvember 2002, kl. 15:51:37 (1002)

2002-11-04 15:51:37# 128. lþ. 21.94 fundur 215#B áhrif af skattstefnu ríkisstjórnarinnar# (umræður utan dagskrár), GE
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 128. lþ.

[15:51]

Gísli S. Einarsson:

Herra forseti. Ísland hefur slegið enn eitt metið. Við erum í næstefsta sæti hvað varðar neysluskatta af öllum löndum innan OECD. Okurskattar eru lagðir á lægstu laun og bætur. Bótaþegar greiða sem svarar mánaðarbótum í skatt á ári. Hækkun skattleysismarka er rofin úr tengslum við verðlag. Það er allt á einn veg hjá ríkisstjórn Davíðs Oddssonar.

Forustumenn Sjálfstfl. boða skattalækkun í orði en hækka í raun skatta á borði. Þeir hækka skatta á barnafólki, öldruðum, einstæðum mæðrum og láglaunafólki. Stóreignamenn og hálaunafólk eru þeir sem hafa notið velvildar ríkisstjórnarinnar með lækkun skatta á fjármagnstekjur.

Skattsvik eru svo annar þáttur sem líklega hefur aldrei blómgast jafn vel og undanfarin ár. Virðulegur forseti. Skattkerfi á Íslandi er óheilbrigt, óréttlátt og þar af leiðandi óskynsamlegt. Tekjuskatturinn er refsiskattur sem jafnar hvorki efnahagslega afkomu né hvetur einstaklingana til efnahagslegra framkvæmda. Skattkerfið er úr sér gengið, hvetur til skattsvika, mismunar einstaklingunum og refsar öldruðum með eignarsköttum.

Herra forseti. Eina aðgerðin sem dugar er að slá af sitjandi ríkisstjórn í komandi kosningum og ég skora á landsmenn að sjá til þess að svo verði.