Áhrif af skattstefnu ríkisstjórnarinnar

Mánudaginn 04. nóvember 2002, kl. 15:53:47 (1003)

2002-11-04 15:53:47# 128. lþ. 21.94 fundur 215#B áhrif af skattstefnu ríkisstjórnarinnar# (umræður utan dagskrár), SAÞ
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 128. lþ.

[15:53]

Sigríður A. Þórðardóttir:

Herra forseti. Ég bara spyr: Hvar býr hv. síðasti ræðumaður? Á undanförnum árum hefur mjög markvisst verið unnið að endurbótum á skattkerfinu hér á landi sem m.a. hafa falið í sér lækkun skatthlutfalls, bæði hjá einstaklingum og fyrirtækjum. Þessar aðgerðir hafa skilað sér í einu lengsta og blómlegasta hagvaxtarskeiði í sögu þjóðarinnar og sýna glöggt styrka stjórn á efnahagsmálum undir forustu Sjálfstfl. Það skýtur því skökku við að nú skuli fara fram umræða um skattamál þar sem staðreyndum er snúið á hvolf og öllu er ruglað saman. Í þeirri umræðu er fullkomlega litið fram hjá raunveruleikanum. Þegar eingöngu er litið á tekjuskattinn koma auðvitað þær einföldu staðreyndir í ljós að hækkaðar launatekjur fólks skila meiri tekjum í ríkissjóð þrátt fyrir að skatthlutfallið hafi lækkað um tæplega 5%. Því hærri sem tekjurnar eru, þeim mun hærra hlutfall fer í tekjuskattinn og þetta er einfaldlega mergur málsins. Því hærri sem tekjurnar eru, þeim mun hærra hlutfall fer í tekjuskattinn.

Enn fremur er rétt að hafa það í huga að lægstu laun hafa hækkað meira en laun almennt og því fækkar fólki sem er með tekjur undir skattleysismörkum. Það sem skiptir líka máli, kannski raunverulega mestu í þessu samhengi öllu, er að kaupmáttur ráðstöfunartekna hefur aukist um þriðjung frá árinu 1994 og enn er spáð aukningu hans um 2% á næsta ári. Þetta er einsdæmi hér á landi og þótt víðar væri leitað.

Einnig má minna á að hækkun barnabóta, afnám skattlagningar húsaleigubóta og 100% millifærsla á persónuafslætti maka koma tekjulægstu hópunum best að gagni. Tekjuskattslækkun fyrirtækja ásamt myndarlegri lækkun (Forseti hringir.) eignarskatta skilar sér í blómlegra atvinnulífi, betri afkomu einstaklinga og fyrirtækja, (Forseti hringir.) og lækkun eignarskatta kemur sér líka best fyrir aldraða.

(Forseti (ÍGP): Ég vil minna hv. þingmenn á að virða tímamörk.)