Áhrif af skattstefnu ríkisstjórnarinnar

Mánudaginn 04. nóvember 2002, kl. 15:56:17 (1004)

2002-11-04 15:56:17# 128. lþ. 21.94 fundur 215#B áhrif af skattstefnu ríkisstjórnarinnar# (umræður utan dagskrár), SJS
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 128. lþ.

[15:56]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég held að það sé afar gagnlegt í umræðum um þetta mál að halda tveimur hlutum aðgreindum. Það eru annars vegar heildarskatttekjurnar, heildarskattasumman í landinu sem auðvitað vex með vaxandi veltu, og hins vegar innbyrðis dreifing skattbyrðarinnar í kerfinu milli fyrirtækja og einstaklinga, og milli tekjuhópa, tekjuhárra og tekjulágra meðaltekjuhópa. Það er athyglisvert að hæstv. fjmrh. neitar algerlega að ræða þann þátt málsins, tönnlast hér hins vegar á því að menn skilji ekki að heildarskatttekjur vaxi með vaxandi veltu. Það hefur enginn borið á móti því. En við viljum líka umræður, hæstv. fjmrh., um dreifingu skattbyrðarinnar. Við viljum umræður um hvort það sé rétt forgangsverkefni í skattamálum núna að lækka eða fella niður álag á háar tekjur en hreyfa ekki skattleysismörkin. Það er pólitík og það þýðir ekki að reyna að skjóta sér á bak við það með umræðum af því tagi sem talsmenn Sjálfstfl. og stjórnarflokkanna hafa reynt að gera.

Það er staðreynd að núna greiða aldraðir og öryrkjar þúsundir króna í skatt af sínum smánarlega lágu tekjum, og þjóðfélagið hefur logað út af því hversu lágar þær eru. En þær eru nógu háar til þess, að mati Sjálfstfl., að borga af þeim skatta, tekjum langt innan við 90 þús. kr. á mánuði sem eiga að duga einstaklingi til framfærslu. Þetta er pólitíkin sem við eigum að ræða um en ekki vera að vafrast hér um með vísun í einhverjar tölur frá OECD um hluti sem í sjálfu sér skipta engu máli, hvar við erum á einhverjum skölum í þeim efnum. Það sem skiptir máli er hvað er eftir í vasanum hjá þeim sem kröppust hafa kjörin eða hvort þar er yfirleitt nokkur skapaður hlutur eftir þegar menn eru að reyna að draga fram lífið í þessu landi þar sem framfærslan er einna dýrust í heiminum af ýmsum ástæðum sem menn þekkja. Lægstu laun fyrir dagvinnu (Forseti hringir.) og bætur í almannatryggingakerfinu eru hins vegar mun lægri en í nágrannalöndunum. Og jafnvel þrátt fyrir það er þetta fólk skattlagt.