Áhrif af skattstefnu ríkisstjórnarinnar

Mánudaginn 04. nóvember 2002, kl. 16:00:47 (1006)

2002-11-04 16:00:47# 128. lþ. 21.94 fundur 215#B áhrif af skattstefnu ríkisstjórnarinnar# (umræður utan dagskrár), HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 128. lþ.

[16:00]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Skattaumræða er alltaf dálítið sérkennileg umræða og stafar líklega af því að það eru fáir sem borga skatt með mikilli gleði eða af fúsum og frjálsum vilja. En svo mikið er víst að ekki eykur vissan um umfang skattsvika á Íslandi ánægju skattgreiðenda.

Ég fullyrði það, herra forseti, að hvorki innan þings né utan er meirihlutavilji fyrir því að taka á skattsvikum. Ég er þar að tala um þá áætluðu 10 milljarða kr. sem þrífast í neðanjarðarhagkerfinu, 10 milljarða sem mætti nota í þágu þurfandi og til góðra verka.

Í rauninni er það hálf sjúkt ástand og það hlýtur þá að byggja á því að það kerfi sem við erum með sé hvað þetta varðar ekki alveg heilbrigt.

Um skattbyrði, herra forseti, má það annað segja að kaupmáttur almennings hefur aukist um 30% á síðasta áratug, eins og fram hefur komið, sem þýðir einfaldlega það að almenningur hefur meira fé á milli handa. Þetta hefur verið gert með markvissum aðgerðum. Það hefur verið gert með því að lækka markvisst skuldir ríkissjóðs, lækka tekjuskatt um 7%, með því að innleiða barnakort og millifæranlegan persónuafslátt milli hjóna, afnema skatta af húsaleigubótum og þannig má áfram telja. Með öðrum orðum, kaupmáttur hefur aukist og almenningur hefur meira fé á milli handa.

Samt er auðvitað til fátækt á Íslandi og það er til þurfandi fólk. Grundvallarspurningin er: Hvernig á að ná til þess? Gerum við það með því að hækka skattleysismörk eins og margir vilja halda fram? Ég hef efasemdir um slíka flata aðgerð, vegna þess að hún nýtist síður þeim sem helst skyldi því það munar afskaplega lítið um þúsund kallinn fyrir millitekjufólkið og hátekjufólkið. Ég tel að slíkum peningum, þúsund krónum í hækkuðum skattleysismörkum, sem þýðir um einn milljarð í útgjöldum, ég tel að sá milljarður væri betur kominn með sértækari aðgerðum í þágu þurfandi og með því að uppræta skattsvikin sem eru mikill vandi í skattkerfi okkar.