Grunngögn um náttúru landsins og náttúrufarskort

Þriðjudaginn 05. nóvember 2002, kl. 14:06:07 (1031)

2002-11-05 14:06:07# 128. lþ. 22.7 fundur 27. mál: #A grunngögn um náttúru landsins og náttúrufarskort# þál., KPál
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 128. lþ.

[14:06]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Það mál sem hér er til umræðu er, eins og komið hefur fram, til skoðunar í annað sinn og það verður náttúrlega rætt í umhvn. hvernig eigi að skoða þetta sérstaklega.

Mér finnst skorta verulega á það hjá hv. flm. að nefna hvað þetta gæti reynst kostnaðarsamt. Við þekkjum að ákveðin svæði hafa verið skoðuð mjög ítarlega. Eyjabakkarnir voru m.a. skoðaðir mjög ítarlega á sínum tíma, 1975 ef ég man rétt, af náttúrufræðingnum og seinna alþingismanni Hjörleifi Guttormssyni. Þegar gert var umhverfismat vegna Fljótsdalsvirkjunar þá stóðu þær rannsóknir fyrir sínu að miklu leyti eftir 25 ár. Ef menn á annað borð gera svona kort þá er ég sammála því að þau standa mjög lengi. Það er ekki ástæða til þess að endurskoða þau fyrr en kæmi þá til framkvæmda.

Síðan er spurningin: Hver á að gera svona? Þetta er eflaust allt mjög gagnlegt og getur komið mönnum að notum. En er í rauninni nauðsynlegt að kortleggja allt landið, alla dali, öll fjöll, alla króka og kima svo nákvæmlega? Við þekkjum nokkuð vel gróðurþekju landsins, útbreiðslu plantna og jurta og útbreiðslu dýra. Við vitum nokkuð vel hvar helstu mannvistarleifar og minjar eru og hversu verðmætar þær eru. Auðvitað erum við alltaf að uppgötva eitthvað nýtt en það er samt ljóst að við vitum mjög mikið.

Samkvæmt mengunarbótareglunni sem hefur verið notuð í Evrópu er gert ráð fyrir því að framkvæmdaraðili verkefna sjái um allar rannsóknir og kosti þær, geri matsáætlun og matsskýrslu. Málsskotsréttur er mismunandi af hálfu almennings og annarra aðila eins og stofnana og félagasamtaka ef menn eru óánægðir með ákveðna skýrslugjöf og telja að rannsóknir séu ekki með þeim hætti sem eðlilegt má telja. Málskotsréttur á Íslandi er t.d. mjög einfaldur. Hér geta menn skotið máli sínu til Skipulagsstofnunar eða umhvrh. eftir atvikum. Þetta kostar nánast ekki neitt á Íslandi þannig að kæruferlið og málskotsrétturinn er mjög þægileg aðferð á Íslandi. Í Noregi fer málið fyrir dómstóla. Þar er ekki hægt að skjóta málinu til ráðherra eða Skipulagsstofnunar heldur fer það fyrir dómstóla sem er mjög erfið eða alla vega miklu erfiðari leið, dýrari, kostnaðarsamari og krefst miklu meiri undirbúnings. Við erum því mjög á vaktinni á Íslandi finnst mér gagnvart náttúrunni og lögin sem við samþykktum fyrir tveimur árum síðan gera beinlínis ráð fyrir því að allur almenningur sé á vaktinni, að almenningur og fyrirtæki fylgist vel með, hafi auðvelda og greiða leið til að koma athugasemdum á framfæri og það á í raun að verða til þess að mistök komi síður upp, í ferlinu sjálfu og í framkvæmdinni.

Ég er ekki að segja að þau lög sem í gildi eru séu fullkomin, síður en svo. Við gerðum ráð fyrir því þegar við settum þessi lög árið 2000 að þau yrðu endurskoðuð á næsta ári eða reyndar í janúar á næsta ári í síðasta lagi þannig að við erum að sjá fram á að ný lög líti dagsins ljós eftir þrjá mánuði ef allt fer eins og gert er ráð fyrir.

Auðvitað má taka einhverjar svona hugmyndir til skoðunar í nefndinni einmitt vegna þess að þetta frv. kemur væntanlega mjög fljótlega inn, þ.e. hvort ástæða sé til þess að skoða ákveðin svæði. Það hefur sem sagt verið gert. Ákveðin svæði hafa verið skoðuð mjög nákvæmlega, þá hugsanlega sérstaklega vegna einlægs áhuga ákveðinna manna á einhverju sérstöku svæði á hálendinu. Ég er dálítið hræddur um að þessi kostnaður sé mjög vanmetinn hjá hv. flm. En af því að ég hef ekki skoðað það get ég ekki fullyrt neitt um það. Við höfum bara séð hvað þær eru dýrar þessar umhverfismatsskýrslur sem Landsvirkjun er t.d. að láta gera um hálendið. Þetta kostar hundruð milljóna, þ.e. ein skýrsla á bak við ekki svo gríðarlega stórt flæmi. Það er ekki hægt að segja að mikið land fari undir vatn. Auðvitað fer nokkurt land undir vatn en ekki neitt óskaplega mikið. Bara rannsóknin á þessu umhverfi þarna kostar hundruð milljóna. Ef við ætlum svo að heimfæra allt landið upp á það þá erum við ekki að tala um neinar smáar tölur þannig að það er svona allt undir ákveðnum varúðarsjónarmiðum hvað ætti að ganga langt í þessu máli ef á annað borð væri farið út í það.

Ég heyrði það í morgun að í kerfinu hér heima væru einstakir vísindamenn að gefa álit vegna ákveðinna framkvæmda --- skýrslur þeirra birtast síðan í umhverfismatsskýrslunni --- og að þeir hafi lýst því yfir að þeir séu beittir einhverjum þrýstingi til þess að skila þá væntanlega niðurstöðu sem er framkvæmdaraðilanum þóknanleg. Ég verð að segja að ég er dálítið hissa á þessu. Ekki það að ég ætli að fortaka fyrir það að þetta geti gerst, en það er ljóst að vísindaheiður og heiður þeirra manna eða fyrirtækja úti í þjóðfélaginu sem taka að sér þessa skýrslugerð, t.d. fyrir Landsvirkjun í þessu tilfelli, er í veði. Mér finnst óskaplega ótrúlegt að menn leggi þennan heiður sinn að veði til að þóknast einhverjum ákveðnum framkvæmdaraðila í eitt skipti.

Ég á líka mjög erfitt með að trúa því að ábyrgt fyrirtæki eins og t.d. Landsvirkjun reyni yfirleitt að stunda svona aðferðir við að koma sínu fram. Ég hef átt mjög góð samskipti við starfsmenn Landsvirkjunar og ég hef ekki orðið var við neitt annað en mjög faglega hugsun. (Forseti hringir.) Við getum sagt að þeir vilji gera hlutina vel og geta staðið við það sem þeir láta frá sér fara.