Grunngögn um náttúru landsins og náttúrufarskort

Þriðjudaginn 05. nóvember 2002, kl. 14:20:20 (1036)

2002-11-05 14:20:20# 128. lþ. 22.7 fundur 27. mál: #A grunngögn um náttúru landsins og náttúrufarskort# þál., ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 128. lþ.

[14:20]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Við fjöllum um till. til þál. um öflun grunngagna um náttúru landsins og gerð náttúrufarskorta. Ég vil í örfáum orðum segja að ég tel að hér sé ákaflega þarft mál til umræðu og hv. umhvn. þurfi að skoða það vandlega.

Við vitum að vegna nýsamþykktra laga um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda er það alger forsenda þess að geta staðið vel að málum að fyrir liggi grunngögn matreidd af opinberum aðilum og jafntiltæk fyrir alla í landinu, hvort sem um er að ræða stóra eða smáa framkvæmdaraðila, t.d. sveitarfélögin. Ég held að hv. umhvn. verði að fara ofan í þessi mál og kortleggja þau vegna þess að hér er e.t.v fyrst og fremst um skort á fjármagni og samhæfingu að ræða eins og fram kemur í tillögunni. Víða í samfélaginu eru þessar grunnrannsóknir og jafnvel grunnkortagerð í gangi. Þar má til nefna náttúrufræðistofur sem eru víða í landinu. Ég tala af nokkurri reynslu þar vegna þess að sjálfur var ég yfirmaður Náttúrufræðistofnunar Norðurlands um margra ára skeið. Þar voru unnar rannsóknir af þessu tagi.

Ég nefni til sögunnar Skipulagsstofnun, Landmælingar og sveitarfélögin öll vegna skipulagsvinnu. Alls staðar er verið að vinna að þessum málum. Ekki má gleyma Náttúrufræðistofnun í þessu sambandi, allra síst Vegagerðinni sem stendur í stórræðum og náttúrlega ekki Landsvirkjun. Eins og fram kemur í þáltill. verður samhæfingarleysið til þess að framkvæmdaraðilar pirrast oft og tíðum út í ferilinn sem ganga þarf í gegnum áður en þeir komast af stað með framkvæmdir. Þeir telja að kerfið sé mjög þungt. Það er þess vegna nauðsynlegt fyrir framþróun og framfarir í landinu, hverjar svo sem þær eru, stórar eða smáar, að þessar grunnrannsóknir og grunnkort verði aðgengileg. Það sparar gríðarlega mikinn tíma og það vitum við sem höfum starfað að þessum málum, t.d. að skipulagsmálum sveitarfélaganna. Sú vinna hefur tafist gríðarlega víða um land, m.a. vegna þess að sveitarfélögin hafa þurft að fara í grunnrannsóknir og kortagerð til að geta lokið skipulagsvinnunni, miðað við þau lög og þær reglur sem við höfum samþykkt í landinu. Þess vegna er gríðarlega mikilvægt að þetta sé gert á þennan hátt.

En eins og ég segi, ég vona að hv. umhvn. fari yfir þessi mál. Miðað við hve margir vinna að þessum málum er ekki ólíklegt að kostnaðurinn sé ekki eins óheyrilegur og sumir vilja vera láta hér, ef þetta er kannski að langmestu leyti samhæfingarmál sem hér er á ferðinni. Það verður bara að skoða það í nefnd. Það hafa verið nefndar 20 milljónir og síðan hafa verið nefndar fleiri hundruð milljónir sem fyrirtæki nota til þess að koma á framkvæmdum, t.d. Landsvirkjun á Kárahnjúkasvæði. Þess ber að geta að slíkar framkvæmdir eru oft undir mikilli pressu sem undanfari framkvæmda og þess vegna er slíkt varla samanburðarhæft. Það er ekkert vafamál að grunnkortagerð af þessu tagi, eftir fyrir fram ákveðnum formúlum sem yfirvöld telja fullnægjandi sem grunn að ákvarðanatöku um framkvæmdir, væri fyrir allra hluta sakir gott mál. Ef til vill verður það niðurstaða hv. umhvn. að hér sé kannski fyrst og fremst um aukið fjárframlag að ræða til einhverrar þeirrar stofnunar, sem ég ætla ekki að leggja dóm á, sem fjallaði um þessi mál. Viðkomandi stofnun gæti þannig tekið að sér frumkvæði og samhæfingarþætti þessara mála.

Virðulegi forseti. Ég vil undirstrika það sem fram kom hjá frsm. þáltill., að auðvitað er líka mjög mikilvægt fyrir trúverðugleika ákvörðunartöku um framkvæmdir að opinberir aðilar sem setji grunnleikreglurnar þannig að engum vafa sé undirorpið á hvaða grunni menn byggja ákvörðunartöku sína. Það verður alltaf þannig, ef við ætlum að stóla á að aðili sem óskar eftir að fara í framkvæmdir, stórar sem smáar, afli fyrst grunngagna af því tagi sem verið er að fjalla um hér, að menn verða tortryggnir gagnvart framgangsmáta viðkomandi framkvæmdaraðila. Í öllum þeim löndum sem við berum okkur saman við, hvort sem það eru Norðurlöndin eða Evrópulöndin, er lögð rík áhersla á að aðgengi að nauðsynlegum grunngögnum sé tryggt öllum og sé lykilatriði til að menn geti byggt á skynsamlegar ákvörðunartökur um framkvæmdir í landinu.

Ég tel gagnlegt og nauðsynlegt fyrir hv. umhvn. að fara ofan í þessi mál og leggja drög að samræmingu vinnunnar á grunni þeirrar tillögu sem hér er lögð fram.