Grunngögn um náttúru landsins og náttúrufarskort

Þriðjudaginn 05. nóvember 2002, kl. 14:26:42 (1037)

2002-11-05 14:26:42# 128. lþ. 22.7 fundur 27. mál: #A grunngögn um náttúru landsins og náttúrufarskort# þál., Flm. BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 128. lþ.

[14:26]

Flm. (Bryndís Hlöðversdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Árna Steinari Jóhannssyni góðar undirtektir við þessa tillögu og tek undir það með honum að að miklu leyti er auðvitað um söfnun upplýsinga og samræmingarvinnu að ræða. Ég vil eigi að síður leggja áherslu á það sem lagt er upp með í orðalagi tillögunnar, að þessi skráning, flokkun og kortlagning sé gerð með hliðsjón af þeim aðferðum sem þróaðar hafi verið á vegum þeirra alþjóðlegu samninga sem ég nefndi áðan.

Það vantar kannski ekki síst að sams konar aðferðafræði sé notuð innan þeirra stofnana og á þeim einstöku svæðum sem verið er að rannsaka þannig að við höfum mælikvarða sem samræmdur væri yfir allt landið og líka samræmdur í alþjóðlegum samanburði. Auðvitað eru þessar upplýsingar að einhveru leyti til og þess vegna tala ég um flokkun og kortlagningu með tilliti til samræmingar.