Ójafnvægi í byggðamálum

Þriðjudaginn 05. nóvember 2002, kl. 14:52:18 (1046)

2002-11-05 14:52:18# 128. lþ. 22.8 fundur 29. mál: #A ójafnvægi í byggðamálum# þál., KÓ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 128. lþ.

[14:52]

Kjartan Ólafsson (andsvar):

Herra forseti. Við ræðum hér till. til þál. um aðgerðir gegn ójafnvægi í byggðamálum. Ég er með spurningu til framsögumanns er varðar greinargerð þáltill. þar sem segir, með leyfi forseta:

,,Aflétta þarf höftum á atvinnufrelsi manna í sjávarbyggðum sem byggja atvinnulíf sitt nánast alfarið á útgerð og fiskvinnslu þannig að þær geti aftur farið að njóta nálægðarinnar við gjöful fiskimið.``

Spurningin er þessi: Vill hv. þm. leggja af fiskveiðistjórnarkerfið á Íslandi? Eigum við að fara að ganga á annan hátt um auðlindirnar en við höfum gert?

Þetta er spurning sem ég gjarnan vildi fá að heyra svar við.

Það kemur jafnframt fram í greinargerðinni að flm. spyrst fyrir um og hefur skoðun á því hvernig eigi að fara með þá fjármuni sem fáist fyrir þá einkavæðingu sem núverandi ríkisstjórn hefur staðið fyrir. Það er ánægjulegt til þess að vita að nú skuli þingmenn úr stjórnarandstöðunni vilja hafa áhrif á það hvernig þeim fjármunum er ráðstafað. Þeir hafa ekki allir verið sammála þeirri einkavæðingarstefnu sem núverandi ríkisstjórn hefur fylgt en það er gott að menn vilja koma að því hvernig ráðstafa eigi fjármununum.

Við þekkjum það að núverandi ríkisstjórn hefur lækkað skatta vegna þess að skuldir ríkisins hafa verið greiddar niður. Það er stefna núverandi ríkisstjórnar að halda því áfram ásamt því að nota fjármuni til samgöngumála á landsbyggðinni.