Ójafnvægi í byggðamálum

Þriðjudaginn 05. nóvember 2002, kl. 14:57:14 (1049)

2002-11-05 14:57:14# 128. lþ. 22.8 fundur 29. mál: #A ójafnvægi í byggðamálum# þál., Flm. JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 128. lþ.

[14:57]

Flm. (Jóhann Ársælsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. endurtók spurningu um það hvort við vildum að með öðrum hætti yrði gengið um fiskimiðin. Tillögur okkar liggja fyrir. Þær byggjast á því að áfram verði í gildi það fiskveiðistjórnarkerfi sem gildir í dag. Við höfum lagt það til að annar háttur verði hafður á hvað varðar eignarhaldið á veiðiheimildunum, að þær verði innkallaðar og að þær verði síðan boðnar öllum sem standa vilja í útgerð á Íslandi á jafnræðisgrundvelli til framtíðar litið. Þannig verði atvinnufrelsið og jafnræðið endurheimt til þeirra byggðarlaga sem hafa verið að koðna niður og dragast upp vegna þess hvernig þetta einokunarkerfi er uppbyggt.

Ég held ekki að ástæða sé til þess að ræða fiskveiðistjórnarkerfið miklu meira við þessa umræðu. Tillögur okkar um stjórn fiskveiða verða væntanlega til umræðu alveg næstu daga og þá getur hv. þm. fengið svör við öllum þeim spurningum sem hann kýs að bera fram um það efni. Við munum með stakri ánægju útskýra fyrir honum hvernig við viljum að staðið verði að þessum málum.