Vændi

Þriðjudaginn 05. nóvember 2002, kl. 14:59:30 (1050)

2002-11-05 14:59:30# 128. lþ. 22.95 fundur 220#B vændi# (umræður utan dagskrár), Flm. GÖ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 128. lþ.

[14:59]

Guðrún Ögmundsdóttir:

Virðulegur forseti. Tilefni þeirrar umræðu sem hér fer nú fram er skýrsla nefndar sem falið var að gera tillögur um úrbætur vegna kláms og vændis. Skýrsla þessi kom út sl. vor og hefði umræða um hana mátt vera meiri. Því miður hef ég ekki haft tækifæri fyrr til þess að ræða hana á hinu háa Alþingi en auk hennar eru til tvær aðrar skýrslur sem lúta að þessum sömu málum. Nú er því komin heildarmynd sem ætti að sjást og þá ættu um leið að hafa skapast möguleikar til viðbragða og nánari skoðunar tillagna til úrbóta í þessum málum.

Ég fagna þessari skýrslu sérstaklega og vil þakka fyrir hana. Mjög góður hópur af fagfólki kom að gerð hennar. Hún er um margt góð og hefur þegar orðið til þess að opna augu margra fyrir þessum falda vanda sem vændið er. Ég segi ,,falda`` vegna þess að við erum núna fyrst að hleypa þessum hlutum upp á yfirborðið, skoða þá og skilgreina, og því hljóta næstu skref að vera þau að koma með lausnir, lausnir sem miða að því að ná konum og körlum, stúlkum og drengjum, út úr þeim hörmungum og hremmingum sem vændi er. Að selja sjálfan sig er alltaf neyð og enn hef ég ekki hitt það hamingjusama fólk sem selur sig, það fólk sem stundum er vísað til í umræðunni.

Margt hefur verið rætt og ritað um mansal og nektarstaðina hér á landi og sú sem hér stendur hefur tekið virkan þátt í allri þeirri umræðu. Mig langar hins vegar til að við beinum sjónum okkar í þetta sinn að aðstæðum og veruleika íslenskra ungmenna, kvenna og karla. Samhengið á milli eiturlyfjaneyslu og vændis er órjúfanlegt, og eru eiturlyfjaneytendur eflaust stærsti hópurinn sem stundar vændi. Það er sú leið sem ungt fólk velur til þess að fjármagna neyslu sína. Kynferðisleg misnotkun á drengjum og stúlkum er oft líka órjúfanlega tengd neyslunni, það er þeirra borgunarform. Þetta á ekki bara við um stelpur heldur líka stráka. Það er hins vegar greinilega meira tabú en svo að það sé rætt. Drengjavændi hefur viðgengist í tugi ára um allan heim og það er að sjálfsögðu líka hér. Af hverju ættum við að vera eitthvað öðruvísi? Ég spyr. Um þennan veruleika er hins vegar ekki fjallað í skýrslunni og er það miður. Ég tel hins vegar afar mikilvægt að velta upp öllum steinum þegar þessi málaflokkur er skoðaður. Ég tel að taka verði á því með sértækum hætti. Við verðum að koma því upp á yfirborðið og finna stuðningsaðferðir og lausnir sem hæfa.

Við vitum flest hverjar eru taldar helstu ástæður þess að fólk leiðist út í vændi. Ég nefndi eina áðan en það kemur ekki að sök að telja þær upp aftur: Kynferðisleg misnotkun í æsku. Hún hefur auðvitað áhrif til allrar framtíðar nema vel sé á málum tekið. Fíkniefnaneysla. Bágar félagslegar aðstæður. Fátækt og ofbeldi. Ofbeldi er stór hluti af þessum heimi sem ég er að tala um hér og það höfum við líka orðið vör við í umræðunni upp á síðkastið. En því má heldur ekki gleyma að hér er um yfirgripsmikið og flókið viðfangsefni að ræða. Umfang vændis vitum ekki um enn en til eru ýmsar leiðir til að kanna slíkt. Ég tel eitt af forgangsmálunum að gera það og þá er mikilvægt að stuðningskerfið vinni saman og jafnframt verði komið með tillögur um það hvernig mæta skuli þörfum þessara hópa fyrir aðhlynningu og stuðning.

Við skulum líka muna að það er ekki bara ungt fólk sem stundar vændi. Við erum líka að tala um konur sem jafnvel eru komnar fast að sjötugu sem neyðast til þess seinni hluta mánaðar að selja sig svo að endar nái saman. Slíkt á ekki að þurfa í samfélagi okkar. Við eigum að geta komið í veg fyrir það.

Herra forseti. Ég hef alla tíð talað fyrir því að vændi væri ekki saknæmt eins og annars staðar er á Norðurlöndunum. Um það má lesa í skýrslu um samanburð á lagaumhverfi í þessum málum milli Norðurlandanna. Vændi er fyrir mér félagslegt vandamál sem mæta á með félagslegum úrræðum. Undir það taka líka skýrsluhöfundar. Þetta er vitaskuld ekki það sama og að lögleiða vændi, af og frá, og vona ég að engum blandist um það hugur.

Mjög margar góðar tillögur er að finna í þessari skýrslu. Ein er m.a. sú að koma á tengslaneti eða samráðsnefnd sem hafi það meginhlutverk að fylgjast með þróun mála. Má þar nefna mikilvægi þess að efla samfélagslega vitund um afleiðingar vændis, kláms og kynferðislegrar misnotkunar, að sinna fræðslu, leiðbeiningu og upplýsingastarfi sem hafi ákveðið forvarnagildi, að stuðla að rannsóknum og annarri öflun á þekkingu á þessu sviði, að hafa frumkvæði að aðgerðum til að stemma stigu við vandanum og síðast en ekki síst að koma með tillögur um nauðsynleg og æskileg hjálparúrræði.

Við þetta má bæta að nauðsynlegt er að hafa margbreytileg úrræði til að koma til móts við mismunandi hópa eins og ég hef þegar rætt um hér.

Ég hef ekki gert klámið að sérstöku umtalsefni í þetta sinn og heldur ekki mansalið. Allt er þetta þó órjúfanlegur hluti af sama heimi. Þetta er ekki sú veröld sem ég vil, og ég veit að þetta er ekki sú veröld sem við viljum hér inni.

Því spyr ég hæstv. dómsmrh.:

1. Hvaða lagabreytingum mun dómsmrh. beita sér fyrir í þessum málaflokki?

2. Mun dómsmrh. beita sér fyrir könnun á umfangi drengjavændis?

3. Mun dómsmrh. beita sér fyrir samstarfi í þessum málaflokki með opnun neyðarlínu, ráðgjöf eða athvarfi?