Vændi

Þriðjudaginn 05. nóvember 2002, kl. 15:04:52 (1051)

2002-11-05 15:04:52# 128. lþ. 22.95 fundur 220#B vændi# (umræður utan dagskrár), dómsmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 128. lþ.

[15:04]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Hér er um að ræða vandmeðfarin mál en engu að síður málaflokk sem nauðsynlegt er að ræða.

Rannsóknin á vændi á Íslandi og félagslegu umhverfi þess sem unnin var fyrir dómsmrn. af Rannsóknum og greiningu sýndi að vændi þrífst í einhverjum mæli á Íslandi. Niðurstöður leiddu í ljós að vændi virtist eiga sér stað á Íslandi meðal þeirra hópa sem athugunin náði til, þ.e. vændi meðal ungs fólks í vímuefnaneyslu og vændi tengt starfsemi nektardansstaða. Ég brást strax við varðandi þær upplýsingar í skýrslunni sem gera grein fyrir vændi hjá ungmennum og beitti mér fyrir breytingu á almennum hegningarlögum sem gerir refsivert að kaupa kynlífsþjónustu hjá ungmennum yngri en 18 ára. Eins og kunnugt er var sú breyting samþykkt á síðasta löggjafarþingi.

Hvað varðar aðra þætti sem rannsóknin náði til var hér um viðamikið mál að ræða og ljóst að engar einfaldar lausnir lágu fyrir. Því skipaði ég þverfaglega nefnd til að bregðast við niðurstöðum skýrslunnar. Í skipunarbréfi sagði að hlutverk nefndarinnar væri m.a. að gera tillögur um viðbrögð við áðurnefndri skýrslu og skýrslu um samanburð á lagaumhverfi Íslands og annars staðar á Norðurlöndum varðandi löggjöf og eftirlit með klámi, vændi og fleiru sem ég lagði fram á 126. löggjafarþingi samkvæmt beiðni. Einnig var nefndinni falið að fara yfir gildandi refsilög sem vörðuðu vændi og kynferðislega misnotkun, rannsókn og meðferð slíkra mála, þar með talið hjálparúrræði fyrir þolendur, og hvort unnt væri að veita börnum og unglingum ríkari refsivernd á þessu sviði.

Eins og sjá má var verksvið nefndarinnar víðtækt og niðurstöður hennar viðamiklar í samræmi við það. Þær snerta ýmis svið er varða klám, vændi og tengda starfsemi. Ljóst er að viðbrögð við skýrslunni heyra undir hin ýmsu embætti og stofnanir. Hér má nefna, auk dómsmrn. og undirstofnana þess, félmrn. og heilbrrn. Skýrslan var send þessum aðilum ásamt bréfi þar sem þess var farið á leit að gripið yrði til viðeigandi ráðstafana vegna þeirra tillagna sem fram komu í skýrslunni.

Eins og áður hefur verið sagt kom nefndin með fjölmargar ábendingar og tillögur. Hvað varðar viðbrögð dómsmrn. í þessum efnum var skýrslan send til refsiréttarnefndar til skoðunar varðandi þær breytingar sem lagðar voru til á almennum hegningarlögum. Ég hef fundað með refsiréttarnefnd vegna þessara tillagna og hefur nú þegar verið unnið frv. til breytinga á almennum hegningarlögum. Þær breytingar varða annars vegar ríkari vernd ungmenna gegn kynferðislegri misnotkun og hins vegar verslun með fólk.

Í frv. sem verður lagt fram á þessu þingi verður þannig brugðist við tillögum nefndarinnar, m.a. með hækkun á refsirammaákvæðum laganna um kynferðisbrot gegn börnum og ungmennum. Jafnframt er vert að nefna sérstaklega verslun með konur í þessu samhengi þar sem stór hluti af þeirri starfsemi er til hagnýtingar í vændisiðnaðinum.

Í skýrslunni er hvatt til alþjóðlegrar samvinnu til að berjast gegn vandanum. Þess ber að geta að dómsmrn. tekur virkan þátt í sameiginlegu átaki Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna gegn verslun með konur. Þá er í niðurstöðum skýrslunnar hvatt til þess að fórnarlömbum mansals sé veitt aukin vernd svo þau geti snúið sér til lögregluyfirvalda án ótta um líf og limi.

Ég get upplýst að fulltrúi dómsmrn. hefur tekið þátt í samvinnu Norðurlandanna varðandi vitnavernd og ég hyggst beita mér fyrir lagabreytingum sem auka vernd vitna. Hvað varðar aðrar breytingar sem nefndin lagði fyrir eru þær í skoðun hjá refsiréttarnefnd. Hvað varðar ákvæði 206. gr. um refsinæmi vændis í framfærsluskyni færði nefndin góð rök fyrir því að fella hana niður. Það eru vissulega ýmis rök sem hníga í þessa átt en þetta þarfnast þó frekari skoðunar.

Á þessari stundu er ég ekki tilbúin til að leggja fram frv. til breytinga í samræmi við þessar tillögur. Nefndin lagði ekki til að sænska leiðin, eins og hún er gjarnan kölluð, yrði farin en hún gengur út á það að gera kaup á vændi refsiverð. Nefndin lagði þó til að fylgst yrði með því hvernig Svíum tækist að ráða fram úr ýmsum vandkvæðum sem hafa fylgt löggjöfinni og að niðurstaða nefndarinnar yrði endurskoðuð að ákveðnum tíma liðnum.

Þess ber að geta að ráðuneytið fylgist vel með allri þróun sem verður í þessum málum, bæði í Svíþjóð og annars staðar.

Hvað varðar spurninguna um það hvort ég muni beita mér fyrir könnun á drengjavændi hér á landi er svarið að ég hef nú þegar beitt mér fyrir slíkri könnun. Ráðuneytið hefur styrkt viðamikla könnun sem Rannsóknir og greining hafa látið gera meðal ungmenna í grunnskólum og menntaskólum. Þar er m.a. spurt um vændi og kynferðislegt ofbeldi. Fyrstu niðurstöðurnar voru unnar út úr þeirri könnun á kostnað ráðuneytisins að beiðni þeirrar þverfaglegu nefndar sem ég skipaði til að bregðast við vændisskýrslunni. Þar sem könnunin var þá á frumstigi þótti óvarlegt að birta niðurstöður hennar án frekari vinnu. Þeirri vinnu hefur verið haldið áfram og niðurstöðurnar sem lágu fyrir í byrjun hafa styrkst. Lokaniðurstöður ættu að liggja fyrir í janúarbyrjun. Hver þáttur ráðuneytisins verður við birtingu niðurstaðna og rannsókna hefur ekki verið ákveðið en viðræður standa nú yfir við höfund rannsóknarinnar um hugsanlegt framhald ráðuneytisins í verkefninu.

Herra forseti. Ég mun leitast við að svara síðustu spurningunni í seinni ræðu.