Vændi

Þriðjudaginn 05. nóvember 2002, kl. 15:10:18 (1052)

2002-11-05 15:10:18# 128. lþ. 22.95 fundur 220#B vændi# (umræður utan dagskrár), DSn
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 128. lþ.

[15:10]

Drífa Snædal:

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þá athygli sem vandamál tengd klámi og vændi hafa fengið undanfarin ár og þá vinnu sem unnin hefur verið til að gera grein fyrir vandanum og finna úrlausnir.

Skýrsla nefndar sem falið var að gera tillögur um úrbætur vegna kláms og vændis er hér til umræðu og er ágætisinnlegg í baráttuna. Hún dregur fram ástæður þess að fólk leiðist út í vændi og slær algerlega á hugmyndir um að það sé á einhvern hátt eðlilegt val sem fólk stendur frammi fyrir.

Sú niðurstaða nefndarinnar að fella úr lögum grein sem kveður á um refsingu fyrir að stunda vændi er í fullu samræmi við þá hugsun að ekki beri að refsa fórnarlömbum vændis. Við þurfum hins vegar að ganga lengra og viðurkenna og skilgreina vændi sem ofbeldi sem beinist aðallega gegn konum. Það er forsenda þess að hægt sé að draga rétta aðila til ábyrgðar fyrir ofbeldið. Í téðri skýrslu er ekki mælt með því að gera kaupendur þjónustunnar sakhæfa en þó er viðurkennt að sú leið hefur orðið til þess að draga úr vændi og mansali í Svíþjóð. Þetta er í samræmi við nýlegar rannsóknir þar í landi en þær sýna einnig að fylgi við lagabreytinguna hefur aukist til muna eftir að afleiðingarnar urðu ljósar.

Ef breytingar á sakhæfi verslunar með líkama verða til þess að draga úr vændi og mansali sýnist mér tilganginum vera náð. Auk þessara afleiðinga skal það ítrekað að hlutverk löggjafans er m.a. að setja viðmið og gefa skilaboð. Ef farið verður að tillögu nefndarinnar verður löglegt að kaupa og selja vændi nema um milligönguaðila sé að ræða. Hvaða skilaboð eru það?

Ef við skilgreinum vændi sem ofbeldi hljótum við að vilja draga ofbeldismennina til ábyrgðar og setja þau viðmið að verslun með líkama verði ekki liðin. Hv. þingkona Kolbrún Halldórsdóttir hefur í fjórgang lagt fram frv. um breytingar á almennum hegningarlögum þar að lútandi. Í því frv. kristallast stefna Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs um að ofbeldi gegn konum og öðrum sem stunda vændi megi aldrei líðast.