Vændi

Þriðjudaginn 05. nóvember 2002, kl. 15:14:49 (1054)

2002-11-05 15:14:49# 128. lþ. 22.95 fundur 220#B vændi# (umræður utan dagskrár), ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 128. lþ.

[15:14]

Þórunn Sveinbjarnardóttir:

Hæstv. forseti. Hvern á löggjafinn að vernda? Manneskjuna sem hefur leiðst út í vændið eða þann sem kaupir sér vændisþjónustuna svokölluðu? Ég hygg tíma til kominn til að staldra við og kryfja þessi mál til mergjar.

Það er rétt hjá hv. þm. Guðrúnu Ögmundsdóttur að vændi er félagslegt vandamál og því þarf að koma þannig fyrir að þeir sem hafa leiðst út í það fái alla þá félagslegu aðstoð sem hægt er að veita þeim. Það segir sig auðvitað sjálft að það á að vera refsilaust með öllu eins og kemur fram í skýrslu nefndarinnar sem hér hefur verið rædd.

En hvað með kaupandann? Hvað með þann sem kaupir sér aðgang að líkama annarrar manneskju? Getum við haldið því til streitu að refsileysi hans sé eðlilegt? Ég hygg, hæstv. forseti, að hér þurfi hv. alþingismenn að staldra við og hugsa um hvaða skilaboð refsileysið sendi út í samfélagið og hvaða stöðu það gefi þeim er kaupa svokallaða kynlífsþjónustu. Við verðum líka að hafa í huga að verslun með konur, börn og ungmenni og lagaleg staða vændis í samfélögum, hvort sem það er í okkar eigin eða öðrum, hangir að sjálfsögðu saman. Skilaboðin frá löggjafanum verða að vera skýr.

Hæstv. forseti. Ofbeldi sem þrífst í klám- og kynlífsiðnaðinum ógnar ekki einvörðungu lífi og sálarheill fórnarlamba þessarar starfsemi. Það dregur úr virðingu okkar fyrir mannhelgi hvers einstaklings og hefur óæskileg áhrif á hugmyndir okkar um samskipti kynjanna og siðfræði kynlífs.

Við erum illa stödd, herra forseti, ef sú skoðun verður almenn á Íslandi að það sé í lagi að kaupa sér aðgang að líkama annarrar manneskju. Þá verða virðing, skilningur og væntumþykja afgangsstærð í samskiptum fólks, og manngildi hvers einstaklings þverr.