Vændi

Þriðjudaginn 05. nóvember 2002, kl. 15:19:18 (1056)

2002-11-05 15:19:18# 128. lþ. 22.95 fundur 220#B vændi# (umræður utan dagskrár), SJS
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 128. lþ.

[15:19]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Því ber að fagna að umræða um þessi mál er komin meira upp á yfirborðið en áður var. Við Íslendingar getum ekki búist við því að sleppa við vændi, mansal og það nútímaþrælahald sem kynlífsiðnaðurinn er ef hér eru allar gáttir hafðar opnar bæði í löggjöf og hvað varðar rekstrarleyfi skemmtistaða. Sem betur fer örlar aðeins á því að taka eigi á starfsemi klámstaða og klámiðnaðar hér í landi. En það er mikið umhugsunarefni hversu sofandi flestir voru í byrjun.

Ég minnist þess þegar hv. þáv. þm. Hjörleifur Guttormsson tók hér upp málefni nektarstaða í árdaga þeirrar starfsemi í landinu. Ég segi nú ekki að menn hafi hlegið, (Gripið fram í: Það var hlegið.) en það var alla vegana lítið gert með þær spurningar sem hv. þm. varpaði þá fram á borðið. Nú er öldin önnur. Nú viðurkenna menn að við munum ekki komast hjá því, leyfum við þessa starfsemi og opnum þar allar gáttir, að henni tengist það sama hér og alls staðar annars staðar þar sem hún er ástunduð, þ.e. vændi, fíkniefnadreifing og mansal og þrælahald kynlífsiðnaðarins. Það er vel að menn eru að átta sig í þessum efnum.

Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs höfum fjórum sinnum flutt um það frv. að kaupin verði gerð refsiverð. Fyrst höfðu menn efasemdir um þá aðgerð sem gripið var til í Svíþjóð fyrir nokkrum árum, en nú vex stuðningur við þá leið hröðum skrefum og það er til athugunar bæði í Danmörku og Finnlandi að fara sömu leið og Svíar vegna góðrar reynslu af þeirri aðgerð. Ég skora á hæstv. dómsmrh. að skoða það nú í meiri alvöru en fyrr að láta ekki staðar numið við að gera kaup af unglingum ein saknæm, heldur almennt.

Að síðustu vil ég segja, herra forseti, að ég held að það sé ákaflega mikilvægt að Íslendingar taki virkan þátt í samstarfi Norðurlandaþjóða með Eystrasaltsríkjunum og fleiri löndum í norðanverðri Evrópu sem eru m.a. í gegnum alþjóðlegt samstarf að reyna að stemma stigu við því ískyggilega vandamáli sem kynlífsiðnaðurinn og mansalið er.