Ójafnvægi í byggðamálum

Þriðjudaginn 05. nóvember 2002, kl. 16:26:00 (1068)

2002-11-05 16:26:00# 128. lþ. 22.8 fundur 29. mál: #A ójafnvægi í byggðamálum# þál., JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 128. lþ.

[16:26]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Atvinnuþróunarfélögin víða um land hafa gegnt og gegna miklu hlutverki. Nú er staðan sú að þau eru í miklu fjársvelti. Þau hafa ekki fengið það fjármagn sem þau þurfa til starfs síns og heldur hefur dregist saman það fjármagn sem þau hafa úr að spila. Talið er að þau vanti a.m.k. 20 millj. kr., 20--30 millj. kr. á fjárlögum næsta árs til að geta haldið óbreyttri starfsemi, hvað þá að styrkja þau og efla í takt við ákvarðanir í byggðaáætlun. Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra byggðamála:

Mun ráðherrann beita sér fyrir auknu fjármagni til þessara atvinnuþróunarfélaga? Þau gegna lykilhlutverki í þróunarstarfi út um land og það er í hróplegu ósamræmi við þær áherslur sem verið er að gorta sig af að ætla að vinna í byggðaáætlun, að skera niður fjárveitingar til atvinnuþróunarfélaganna. Mun hæstv. ráðherra beita sér fyrir auknu fjármagni til þeirra?