Ójafnvægi í byggðamálum

Þriðjudaginn 05. nóvember 2002, kl. 16:28:22 (1070)

2002-11-05 16:28:22# 128. lþ. 22.8 fundur 29. mál: #A ójafnvægi í byggðamálum# þál., JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 128. lþ.

[16:28]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka ráðherra fyrir svarið. Hæstv. ráðherra sagði viðunandi. Ef hún ætlar að auka við og efla þá er það ekki viðunandi en viðleitni þó ef hægt er að halda því í horfinu.

Það er eitt sem ég vildi biðja hæstv. ráðherra að athuga og það er hvort ekki væri rétt að nota annað orðalag en það að byggja upp einhverja staði til mótvægis við höfuðborgina. Eigum við að fara að byggja margar höfuðborgir? Við eigum bara eina höfuðborg og hana viljum við byggja upp og efla. En við viljum líka styrkja aðra staði og ef menn endilega vilja nota ,,vægi`` þá er það bara ,,meðvægi`` með höfuðborginni en ekki stöðugt að vera að tefla fram andstæðum eins og hæstv. ráðherra hefur í allt of ríkum mæli gert, teflt fram landshluta gegn landshluta, landsvæði gegn landsvæði og svo standa allir eftir jafnslyppir.

Ég hef lagt til og óskað eftir í fjárln., herra forseti, að iðnrn. skili greinargerð til nefndarinnar um hvað skorti á í fjárlagafrv. næsta árs til þess að staðið sé við byggðaáætlun.