Ójafnvægi í byggðamálum

Þriðjudaginn 05. nóvember 2002, kl. 16:40:22 (1081)

2002-11-05 16:40:22# 128. lþ. 22.8 fundur 29. mál: #A ójafnvægi í byggðamálum# þál., iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 128. lþ.

[16:40]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Stundum er það þannig að hv. þm. Árni Steinar Jóhannsson talar mikið um lýðræði og valddreifingu. Ég má ekki gleyma því orði, valddreifingu. Nú er það svo að ríkisvaldið ætlar að vinna þetta mál og þessa stefnu fyrir Eyjafjarðarsvæðið með heimamönnum en ekki stendur til að teknar verði einhliða ákvarðanir af ríkisvaldinu um hvernig fara skuli í þetta mál. Við trúum því að á þann hátt náum við meiri árangri og við náum þá árangri sem dugar og sem blífur. Þetta er hugsunin á bak við það hvernig farið er í málið.

Ég veit ekkert um Landskrá fasteigna. Það er mál sem heyrir ekki undir iðnrn. Af því að hv. þm. spurði hvort ráðherrar hefðu komið sérstaklega saman út af þessu máli er það þannig að ráðherrar hittast tvisvar í viku --- það heita ríkisstjórnarfundir --- og þá er talað um þetta mál eins og önnur.