Verðmyndun á innfluttu sementi

Þriðjudaginn 05. nóvember 2002, kl. 16:52:55 (1083)

2002-11-05 16:52:55# 128. lþ. 22.9 fundur 32. mál: #A verðmyndun á innfluttu sementi# þál., 133. mál: #A framtíðarhlutverk Sementsverksmiðjunnar hf.# þál., Flm. JB (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 128. lþ.

[16:52]

Flm. (Jón Bjarnason):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um úttekt á verðmyndun á innfluttu sementi. Flutningsmaður ásamt mér er hv. þm. Árni Steinar Jóhannsson. Tillagan hljóðar svo:

,,Alþingi ályktar að fela iðnaðarráðherra að láta gera úttekt á verðmyndun á innfluttu sementi og að grípa til aðgerða ef í ljós kemur að um undirboð er að ræða.``

Herra forseti. Sementsverksmiðja ríkisins tók til starfa á Akranesi síðla árs 1958. Henni var breytt í hlutafélag árið 1993 og heitir nú Sementsverksmiðjan hf. Öll hlutabréf í fyrirtækinu eru í eigu ríkisins og verða ekki seld öðrum nema með samþykki Alþingis. Heimild er í fjárlögum til að selja 25% hlut ríkisins í verksmiðjunni, en sú heimild hefur sem betur fer ekki verið nýtt að því er ég best veit. Tilkoma Sementsverksmiðjunnar gjörbreytti á sínum tíma skilyrðum til mannvirkjagerðar í landinu og skipti sköpum fyrir atvinnulíf á Akranesi sem var lengst af einn stærsti atvinnustaður þar eða einn af þeim allra stærstu. Alls starfa nú um 90 manns við Sementsverksmiðjuna.

Það gefur því augaleið að þessi gríðarlega stóri vinnustaður hefur mikil áhrif. Það er margháttuð starfsemi sem tengist þessum atvinnurekstri þannig að margfeldisáhrifin af þessu fyrirtæki eru í heild gríðarlega mikil. Það er því til nokkurs barist að Sementsverksmiðjan geti haldið hlut sínum, verið samkeppnisfær og við áfram notið sements sem er framleitt innan lands.

Sementsverksmiðjan og sement sem framleitt var hér á landi er líka að því leyti til sérstakur iðnaður að nánast allt hráefnið er innlent. Grunnhráefni sementsins er skeljasandur sem tekinn er hér úti í Faxaflóanum, það er líparít sem tekið er uppi í fjöllunum, sömuleiðis basalt, þannig að meginefnið er innlent hráefni. Sömuleiðis er notuð nokkur raforka en því miður hefur orðið að nýta að langmestu leyti innflutta orku eins og kol til þess að framleiða sementið. Engu að síður hefur framleiðsla á sementinu verið mjög samkeppnisfær og Sementsverksmiðjan sjálf hefur lagt metnað í bæði að efla, styrkja og gera framleiðsluna hagkvæmari jafnframt því sem unnið hefur verið markvisst að því að bæta umhverfisþætti framleiðslunnar.

Verksmiðjan hefur komið sér upp sérstöku umhverfisstjórnunarkerfi og umhverfisstjórnunareftirliti sem er með því besta sem gerist um þessa framleiðslu. Hún hefur sett sér mjög sterka og ákveðna umhverfisstefnu sem fylgt er vandlega eftir. Auk þess hefur verksmiðjan fengið viðurkenningar um alþjóðlega gæðavottun, bæði á vörunni sjálfri og eins á framleiðsluferlinu öllu þannig að í verksmiðjunni hefur ríkt mikill metnaður til þess að standa sem best að öllum þáttum. Það er því með nokkrum ugg sem við nú horfum á þá þróun sem hefur verið að eiga sér stað á sl. tveimur árum.

Sement er nú farið að flytja inn frá Danmörku og mun hlutdeild innflutts sements vera í kringum 20% af heildarnotkun sements í landinu. Samkvæmt þeim upplýsingum sem flutningsmenn hafa og hafa verið birtar í fjölmiðlum á þessu ári, sérstaklega nú í sumar, þá er verð þessa innflutta sements mun lægra en í útflutningslandinu og jafnvel lægra en sementsverð í öðrum löndum sem viðkomandi aðilar flytja út til.

Sementsverksmiðjan hefur kært meint undirboð samkeppnisaðilans til samkeppnisyfirvalda. Það mál er ekki endanlega útkljáð en sá dómur sem féll í vor hjá Samkeppnisstofnun var á þann veg að innflutningsaðilanum væri heimilt að bjóða sement á lægra verði um takmarkaðan tíma vegna þess að litið væri svo á að Sementsverksmiðjan væri markaðsráðandi hér á markaðnum og þess vegna gæti þessum innflutningsaðila sem minni hluta á markaðnum verið heimilt áð bjóða fram sement á lægra verði. Þetta mál hefur síðan verið kært áfram til evrópskra dómstóla sem við eigum aðild að og lútum og er ekki fyrir séð hvenær sá úrskurður kemur.

Herra forseti. Það fyrirtæki sem er að flytja inn sement er risafyrirtæki samanborið við stærð Sementsverksmiðjunnar á Akranesi. Það er margfalt stærra fyrirtæki með starfsemi í mörgum löndum og hefur þess vegna gríðarlegt fjármagn að baki sér og getur sjálfsagt staðið það af sér að bjóða hér sement til sölu á öðru verði en er kannski raunframleiðslukostnaður er í heild sinni hjá fyrirtækinu.

Þetta fyrirtæki, Sementsverksmiðjan á Akranesi, er ekki stórt fyrirtæki og hefur ekki neina digra sjóði á eigin vegum til þess að standast samkeppni sem þessa. Því er afar mikilvægt að gengið sé sem fyrst úr skugga um hver sé hin raunverulega samkeppnisstaða þessarar verksmiðju, framleiðslu hennar hér á landi og þessa innflutnings á sementi þannig að sú hlið sé ljós. Því að biðtími sem slíkur málarekstur getur tekið gæti orðið fyrirtæki eins og Sementsverksmiðjunni á Akranesi dýrkeyptur. Það er ekki víst að Sementsverksmiðjan standi af sér biðtíma sem hefði í för með sér að hér yrði selt sement á lægra verði og samkeppnishættir kannski þar með ekki hafðir í fullum heiðri.

[17:00]

Það er afar mikilvægt, herra forseti, að ekki sé hér um óeðlilega viðskiptahætti að ræða í ljósi stöðu Sementsverksmiðjunnar á Akranesi og íslenska markaðarins því að það mundi verulega draga dilk á eftir sér. Þess vegna teljum við, flm. þessarar þáltill., afar nauðsynlegt að ríkið sem er eigandi verksmiðjunnar að öllu leyti grípi nú þegar til og hafi frumkvæði að því að kanna þessa samkeppnisstöðu, bæði hver staða hinnar innlendu sementsframleiðslu er og sömuleiðis hinnar erlendu. Ríkið verður sem eigandi fyrirtækisins að koma nú þegar inn í og kanna þessa réttarstöðu. Ef um undirboð er að ræða þarf að taka á því og tryggja að jafnræðis verði gætt hvað varðar framleiðslu Sementsverksmiðjunnar.

Flm. telja að verði ekkert að gert geti það stofnað rekstri Sementsverksmiðjunnar á Akranesi í hættu og jafnvel orðið til þess að hann yrði lagður niður. Það yrði skarð fyrir skildi í íslensku atvinnulífi ef við sæjum á bak innlendri sementsframleiðslu. Það er líka hætt við, herra forseti, að sú staða kæmi sér afar illa fyrir íslenskan markað og mundi skaða hagsmuni neytenda til lengri tíma.

Herra forseti. Vinstri hreyfingin -- grænt framboð vill leggja áherslu á það í atvinnumálum að við horfum einnig til þeirra atvinnufyrirtækja sem eru fyrir í landinu, að við látum þau ekki lönd og leið og hugsum bara um það með hvaða hætti við getum hugsanlega byggt upp einhverja erlenda stóriðju. Það þarf að huga að þeim atvinnurekstri sem fyrir er. Það þarf að huga að því hvernig megi gera hann hagkvæmari, styrkja stöðu hans en ekki láta hann lönd og leið.

Ég vil því, herra forseti, spyrja hæstv. iðnrh. sem fer með málefni Sementsverksmiðjunnar: Hvað hyggst hæstv. iðnrh. gera í málefnum verksmiðjunnar? Það hefur komið fram í fréttum að undanförnu að fjárhagsstaða og rekstrarstaða verksmiðjunnar sé með þeim hætti að hæpið sé að hún standi af sér óbreytta verðsamkeppni eins og hún er núna. Hyggst ráðherra þá bara láta það lönd og leið og verksmiðjuna leggjast af ef út í það er farið? Mun hæstv. ráðherra beita sér fyrir aðgerðum til að styrkja stöðu verksmiðjunnar og standa vörð um þessa framleiðslu?

Herra forseti. Þetta er stórmál. Þetta er eiginlega prófsteinn á það hvernig íslensk stjórnvöld ætla að taka á íslenskum atvinnumálum, hvort við ætlum að standa vörð um framleiðslu eins og Sementsverksmiðjunnar. Allir vita að ekki er pláss nema fyrir einn stóran aðila á þessum markaði á Íslandi. Það er ekki pláss fyrir annan, og fari svo að Sementsverksmiðjan geti ekki staðið af sér þessa samkeppni mun verða einokun á innflutningi. Þá verður hægt að verðleggja í samræmi við það. Er það það sem við viljum? Nei, það er a.m.k. ekki það sem við viljum hjá Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði. Við viljum það ekki og við teljum að Sementsverksmiðjan sem að langmestum hluta nýtir innlend hráefni til framleiðslu sinnar geti aukið hlut sinn jafnframt með þróun til að geta tekið þátt í að brenna orkuríkum úrgangsefnum, eins og hér verður mælt fyrir á eftir. Staða Sementsverksmiðjunnar er því á margan hátt stórmál, bæði fyrir landið í heild og einnig fyrir íbúa þessa landsvæðis.

Herra forseti. Ég ítreka að þessi till. til þál. felur það í sér að fela iðnrh. að láta nú þegar gera úttekt á verðmyndun á innfluttu sementi og grípa til aðgerða ef í ljós kemur að um undirboð er að ræða ásamt því að kanna með hvaða hætti megi tryggja rekstrarstöðu verksmiðjunnar. Ætlar ráðherra e.t.v. að láta málin danka áfram? Ég er með í fórum mínum heilmikil gögn sem sýna að þessi mál þola ekki bið, herra forseti. Hér þurfa því að koma skýr svör um stefnuna í atvinnumálum, bæði fyrir þá sem reka verksmiðjuna, fyrir þá sem vinna þar og það umhverfi sem snýr að henni og einnig fyrir landið og þjóðina alla.

Herra forseti. Ég þarf ekki að hafa þetta mál lengra að sinni en ég óska eftir því að hæstv. viðskrh. greini þingheimi frá því hvernig ráðuneytið og ríkisstjórnin ætli sér að taka á málefnum Sementsverksmiðjunnar. Þetta mál þolir ekki bið.