Verðmyndun á innfluttu sementi

Þriðjudaginn 05. nóvember 2002, kl. 17:39:11 (1090)

2002-11-05 17:39:11# 128. lþ. 22.9 fundur 32. mál: #A verðmyndun á innfluttu sementi# þál., 133. mál: #A framtíðarhlutverk Sementsverksmiðjunnar hf.# þál., Flm. ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 128. lþ.

[17:39]

Flm. (Árni Steinar Jóhannsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. iðnrh. talaði hér um að ég væri á móti samkeppni samkvæmt málflutningi mínum. Það er alls ekki verið að tala um slíkt. Það er útúrsnúningur. Við erum að tala um jafnræði. Ef við tölum um skipasmíðaiðnaðinn þá var það alltaf okkar framsetning að það ætti að vera jafnræði, miðað við það sem aðrir væru að gera í svokallaðri samkeppni. Norðmenn voru t.d. bæði með stofnstyrki til sinna stöðva og ekki síður hagstæð lán. Það er í þessu sem okkar iðnaður býr ekki við jafnræði.

Til að árétta þetta frekar þá stöndum við t.d. frammi fyrir því í sambandi við áframeldi á lúðu að hér á landi er ekki hafin uppbygging þar sem menn hefðu jafna möguleika miðað við aðra. Seiðin eru flutt til Skotlands og Kanada vegna þess að þar eru í boði stofnstyrkir. Það eru svona hlutir sem við viljum velta upp.

Það eru allt of mörg dæmi þess að við töpum framleiðslu og atvinnutækifærum vegna þessa. Við erum sofandi gagnvart því sem aðrir eru að gera. Það er enginn að tala um einokun. Við gerum okkur fulla grein fyrir því í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði að bygging skipa og skipasmíðaiðnaður lýtur lögmálum samkeppni. En þá verður grunnurinn fyrir samkeppninni að vera svipaður í öllum löndunum. Ef einhver einn getur dregið sig út úr með alls konar framlögum og ívilnunum heima fyrir þá er það ekki samkeppni. Það er mismunun. Það er þetta sem við erum að draga fram gagnvart öllum iðnaði og framleiðslu í landinu. Við viljum hafa það að leiðarljósi í málflutningi okkar.