Verðmyndun á innfluttu sementi

Þriðjudaginn 05. nóvember 2002, kl. 17:45:11 (1093)

2002-11-05 17:45:11# 128. lþ. 22.9 fundur 32. mál: #A verðmyndun á innfluttu sementi# þál., 133. mál: #A framtíðarhlutverk Sementsverksmiðjunnar hf.# þál., GE
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 128. lþ.

[17:45]

Gísli S. Einarsson:

Virðulegur forseti. Ég tek undir þá tillögu sem hér er flutt um úttekt á verðmyndun á innfluttu sementi, en er þeirrar skoðunar að hæstv. iðnrh. og hæstv. ríkisstjórn hefðu átt að vera búin að blanda sér í þetta mál fyrir allt að einu ári síðan. Mér er kunnugt um að stjórnendur Sementsverksmiðjunnar hafa verið í ströggli í þessu máli við að reyna að komast að og upplýsa hvaða verð gæti talist eðlilegt á innfluttu sementi. En það hefur ekki gengið.

Það er svo undarlegt að sá sem hér stendur er fyrrverandi starfsmaður beggja fyrirtækjanna sem hér er um að ræða, annars vegar Sementsverksmiðjunnar um 30 ára skeið og hins vegar um tæplega tveggja ára skeið Aalborg Portland sem þá var að mestum hluta danskt fyrirtæki en er nú hluti af alþjóðahring sem er rekinn áfram í krafti gróða og fjármagns.

Sem fyrrverandi starfsmaður er mér mjög vel ljós sá gífurlegi aðstöðumunur og stærðarmunur sem er á milli þessara fyrirtækja. Sementsverksmiðjan er með framleiðslugetu sem nemur 120--160 þús. tonnum að hámarki á ári, en Aalborg Portland er með 12--15 falda þá framleiðslu í svona meðalári án þess að keyra vélar sínar af fullum krafti. Þeir segjast vera að selja hingað umframframleiðslu sína. En það er aðeins brot af umframframleiðslunni sem þeir selja hingað. Það verður því flókið ferli að gera slíka úttekt sem hér er verið að ræða um. En það er samt svo að það verður, hæstv. iðnrh., að liggja fyrir á næstu vikum hvort verið er að selja innflutt sement á undirverði á okkar markaði. Það verður að gerast.

Danska fyrirtækið finnur fjárhagslega ekkert fyrir því að knésetja fyrirtæki eins og Sementsverksmiðjuna. Eina markmið þeirra er að ná markaðnum og ráða með tímanum verðlagningu og gæðum. Þetta er þeirra markmið. Ef íslensk stjórnvöld láta það fram hjá sér fara að hafa afskipti af þessu máli standa þau sig enn verr en ég hef talið.

Ég get tekið undir greinargerð flutningsmanna um að Sementsverksmiðjan er gífurlega mikilvægur aðili í atvinnulífi Akraness á öllum sviðum. Verksmiðjan er í raun mikilvæg fyrir alla mannvirkjagerð og byggingariðnaðinn eins og hann leggur sig á Íslandi. Hráefni til sementsgerðar er að stærstum hluta íslenskt efni, kalksandurinn úr Faxaflóa og líparítið úr Hvalfirði. Þar að auki er notuð mikil raforka og vatn við framleiðsluna.

Það eru allar líkur á því að þau 90 störf sem eru í Sementsverksmiðjunni beri með sér afleidd störf sem eru sennilega 150 jafnvel allt að 200. Að mjög mörgu er því að hyggja fyrir hvert starf og mikið í húfi, ekki bara fyrir sveitarfélagið Akranes heldur fyrir íslenskt atvinnulíf. Því skora ég á hæstv. forsrh. og iðnrh. að blanda sér nú þegar í málið.

Til þess að útskýra örlítið mismuninn á stærð þessara verksmiðja sem hér eiga í hlut þá standa málin þannig að í Álaborg er keypt lággæðagjall frá Rússlandi og Póllandi, keypt af þeim þjóðum, flutt þangað inn og blandað við gjallið sem framleitt er í Álaborg, hágæðavöru. Síðan er malað úr því sement. Fyrir utan það að nota til brennslunnar venjulega olíu og kol þá notar þessi verksmiðja, Aalborg Portland, niðurtætt gúmmí, timbur og alls konar úrgangsefni sem eru brennanleg við 1.400 gráðu hita vegna þess að við þann hita brenna nánast öll snefilefni upp. Því er vissulega rétt að sementsverksmiðjur eru einhver bestu tæki til þess að eyða slíkum efnum en nýta orkuna jafnframt til eigin framleiðslu.

Þessi verksmiðja í Álaborg tekur nánast alla ösku frá rafmagnsframleiðslufyrirtækjunum í Álaborg sem framleiða rafmagn með kolum og eyðir henni. Henni er ýmist blandað saman við sement eða beint í gjallið. Það eru svo margir hlutir sem eru svo ólíkir vegna stærðarinnar að því verður ekki lýst nema með löngum fyrirlestri. Það vill svo til að sá sem hér stendur kynntist þessu ferli. Þó svo að við værum lítil hér á Íslandi með okkar verksmiðju þá gátum við flutt þekkingu héðan og til þeirra í ýmsu.

Herra forseti: Ég spyr hvort ég fái ekki tíma til að ræða bæði málin. Er það bara annað málið? Fæ ég bara sjö mínútur?

(Forseti (ÁSJ): Það var tilkynnt, hv. þm., að við mundum taka til umræðu bæði málin saman. En hv. þm. er velkomið að setja sig á mælendaskrá aftur ef hann vill.)

Herra forseti. Hér er einnig rædd till. til þál. um úttekt á framtíðarhlutverki Sementsverksmiðjunnar hf. við förgun spilliefna. Sú framtíð á að vera að framleiða gæðavöru áfram svo sem verið hefur. Með rannsóknum og tilraunum hefur tekist að koma í veg fyrir þær úrfellingar í steypu sem komu í ljós á þeim tíma þegar farið var að nota sjávarmöl til steypugerðar. Það er tækni sem við Íslendingar höfum tileinkað okkur umfram aðra sementsframleiðendur. Hér er því til þekking sem við megum ekki glata. En stöðug hagræðing og framför hefur leitt til hámarksfækkunar starfa í Sementsverksmiðjunni.

Virðulegur forseti. Ég hef mjög margt fleira um þetta mál að segja. Ég hyggst þó ekki standa hér í stól og ræða þetta mál aftur og aftur. En við munum finna fyrir því, eins og ég hef áður sagt, að Aalborg Portland getur beitt sér harkalega til að ná undir sig íslenska sementsmarkaðnum. Ef svo fer munu íslenskir notendur finna fyrir áhrifum stórveldis, þ.e. ef Sementsverksmiðjan verður knésett.