Verðmyndun á innfluttu sementi

Þriðjudaginn 05. nóvember 2002, kl. 17:53:42 (1094)

2002-11-05 17:53:42# 128. lþ. 22.9 fundur 32. mál: #A verðmyndun á innfluttu sementi# þál., 133. mál: #A framtíðarhlutverk Sementsverksmiðjunnar hf.# þál., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 128. lþ.

[17:53]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Það er vel að þessi umræða er í Alþingi um málefni Sementsverksmiðjunnar. Þær tillögur sem hér liggja fyrir hafa orðið til þess að málið var tekið upp í þinginu. Ég ætla fyrst og fremst að ræða um samkeppnisaðstöðu Sementsverksmiðjunnar.

Ég átti einu sinni sæti í stjórn þessarar verksmiðju fyrir mörgum árum síðan og á þeim árum var ákveðið að fara að brenna kolum í verksmiðjunni. Eftir að sú ákvörðun var tekin tókst að reisa verksmiðjuna úr rústum. Það var ekkert minna. Hún hafði gjörsamlega koðnað niður í verðbólguæðinu sem óð yfir landið þar sem sementsverði var haldið niðri vegna þess að það hafði áhrif á vísitöluna. En þegar ákvörðun um að brenna kolum var tekin þá ákváðu stjórnvöld að leyfa verksmiðjunni að njóta árangursins af þessu. Hann var notaður til þess að byggja verksmiðjuna upp, halda henni við og í dag er hún í miklu betra ástandi en áður var. Því er hægt að segja að verksmiðjunni hafi verið stjórnað vel á undanförnum árum og að hún sé út af fyrir sig ágætlega rekstrarhæf eins og hún er.

Þegar ég var í stjórn verksmiðjunnar taldi ég að ef einhver aðili tæki þá ákvörðun að setja upp sölukerfi á Íslandi og fara að selja sement í samkeppni við þessa verksmiðju þá væri mjög hæpið að hún lifði það af. Þess vegna kemur mér þægilega á óvart þegar stjórnendur verksmiðjunnar fullyrða að verksmiðjan geti vel staðið sig í samkeppni ef sú samkeppni sé á eðlilegum grundvelli. Ég vona sannarlega að þeir hafi rétt fyrir sér í þessu. En ég ætla að spyrja hæstv. ráðherra: Er ekki kominn tími til þess að stjórnvöld segi það skýrt og skorinort hvaða stefnu þau hafa í málinu? Mín skoðun er sú að stefnan eigi að vera þessi: Stjórnvöld hafa átt þessa verksmiðju. Þau hafa rekið hana til þess að skaffa sement til nota á Íslandi. Það sem er mikilvægast af öllu er að tryggja samkeppni í framboði á sementi á markaðnum. Það verður ekki góð framtíð ef því fyrirtæki sem nú er komið inn á markaðinn tekst að knésetja verksmiðjuna og sitja síðan eitt að markaðnum í framhaldinu.

Ég tel að ríkið sem ábyrgðaraðili þess að reka Sementsverksmiðjuna fram á þennan dag hljóti að eiga að bregðast við með þeim hætti að segja sem svo: Þessi verksmiðja verður rekin í samkeppni við þennan innflutning og við munum sjá til þess að sú samkeppni verði sanngjörn og að þar séu eðlilegar leikreglur virtar. Ef verksmiðjan getur hins vegar ekki staðist þá samkeppni á eðlilegum grundvelli þá verði sölukerfi hennar notað til þess að flytja inn sement frá öðrum samkeppnisaðilum hingað til að keppa við þennan innflutningsaðila.

Sölukerfi verksmiðjunnar er mjög mikils virði. Við vitum t.d. að spænskir aðilar höfðu áhuga á því að kaupa sölukerfi verksmiðjunnar fyrir nokkrum árum síðan, en fengu það ekki. Þeir ætluðu sér ekki að reka sementsverksmiðjuna. Það er alveg klárt mál. Þeir ætluðu að leggja niður framleiðsluna en nota sölukerfi verksmiðjunnar til að selja.

Ég tel mjög mikilvægt að þessi vilji komi fram vegna þess að ef það er rétt sem hér hefur verið haldið fram, að þetta erlenda fyrirtæki sé að selja hér á undirverði, þá hlýtur það að vera tímabundið ásand. Það getur ekki verið að þetta fyrirtæki ætli til langrar framtíðar að selja sement, kannski til stórvirkjana hér eða hvað það nú allt verður, á undirverði. Hins vegar getur vel verið að þetta fyrirtæki hafi ákveðið að koma inn á markaðinn með lágt verð og nota það tímabil til þess að koma verksmiðjunni fyrir kattarnef. Það eigum við ekki að líða og mér finnst stjórnvöld eiga að sýna spilin sín í þessu. Þau eru að mínu viti þessi: Verksmiðjan verður rekin ef rekstrargrundvöllur er eðlilegur fyrir hana á því verði sem eðlilegt má telja á markaðnum. Það hlýtur að vera hægt að koma í veg fyrir að menn séu að spila hér á vitlausu verði. En mikilvægt er að það liggi líka fyrir, ef niðurstaðan verður sú að ekki sé hægt að reka verksmiðjuna, að sölukerfi hennar verði þá notað til þess að full samkeppni verði við þann innflutning sem nú er í gangi

Ég er ekki að segja þetta vegna þess að það sé framtíð sem ég vil sjá. Ég er að segja þetta vegna þess að það kæmi kannski einhverri skynsemi inn í höfuðið á þeim sem flytja hingað inn sement, þ.e. ef raunverulega er verið að flytja það inn á undirballans, sem ég hef enga ástæðu til að rengja að verið sé að gera.

En á meðan stjórnvöld sýna ekki spilin sín, segja ekki frá því hvað þau ætla sér þá má auðvitað ætla að þeir hjá Aalborg Portland telji að þeir komist bara upp með að leggja Sementsverksmiðjuna á hliðina (GE: Það er rétt.) og klára það.

Því tel ég mjög mikilvægt að hæstv. iðnrh. segi hug sinni í þessu máli. Ef verksmiðjan hættir rekstri, verður þá séð til þess að sölukerfið verði notað í samkeppni við þennan innflutning? Það er vopn sem ég tel að skipti miklu máli að beita í þeirri baráttu sem er uppi um að halda áfram að reka Sementsverksmiðjuna, vegna þess að ég tel að það sé hægt. En þessi aðför að henni mun takast ef menn bregðast ekki við.