Verðmyndun á innfluttu sementi

Þriðjudaginn 05. nóvember 2002, kl. 18:03:41 (1097)

2002-11-05 18:03:41# 128. lþ. 22.9 fundur 32. mál: #A verðmyndun á innfluttu sementi# þál., 133. mál: #A framtíðarhlutverk Sementsverksmiðjunnar hf.# þál., Flm. JB
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 128. lþ.

[18:03]

Flm. (Jón Bjarnason):

Herra forseti. Ég vil fyrir hönd okkar flutningsmanna þessara tveggja þingsályktunartillagna, mín og hv. þm. Árna Steinars Jóhannssonar, þakka fyrir þá umræðu sem hér hefur orðið um þetta afar brýna mál. Það er augljóst að allir þeir sem hér hafa tekið þátt í umræðunum leggja áherslu á alvöru málsins og það að grípa þurfi sem fyrst til aðgerða. Mér þykir mjög gott að þetta hafi komið hérna skýrt fram.

Hér hefur verið dreginn fram sá mikli stærðarmunur og aðstöðumunur sem er á milli þessara tveggja fyrirtækja, Sementsverksmiðju ríkisins á Akranesi og alþjóðafyrirtækisins Aalborg Portland, sá mikli munur sem er á þessum fyrirtækjum og möguleikinn á að standa af sér lágt verð eða beita á einn eða annan hátt viðskiptaaðferðum til þess að ryðja sér braut á markaði. Þarna er því um tvo mjög ólíka aðila að ræða.

Okkur á heldur ekki að koma á óvart --- og það liggur í hlutarins eðli --- að auðvitað sækir sá aðili sem stendur hér að innflutningi á sementi, inn á markaðinn með öllum þeim tiltæku ráðum sem hann hefur og lög heimila. Það liggur í hlutarins eðli. Innflutningsaðilinn sækir málið af því kappi sem mögulegt er. Það er eðlilegt og til þess er hann ráðinn og það er hans hlutverk. Hitt snýr þá að okkur hvernig brugðist skal við.

Hér hefur komið fram, bæði í máli okkar flutningsmanna og annarra, að Sementsverksmiðjan er metnaðarfullur starfsvettvangur. Fólkið sem þar vinnur er metnaðarfullt fyrir hönd verka sinna og þess sem þar fer fram. Verksmiðjan sjálf leggur mikinn metnað í vandaða og góða framleiðslu og hyggur að öllum umhverfis- og mengunarþáttum afar vel. Þetta er því ekki vinnustaður sem er að drabbast niður, síður en svo, heldur þvert á móti.

Við höfum líka í þessum tveimur tillögum dregið fram fjölþætt hlutverk Sementsverksmiðjunnar. Hún framleiðir sement úr innlendum hráefnum. Hún er öflugur og góður vinnustaður með margfeldisáhrif inn í samfélagið, bæði á Akranesi og víðar, um allt land. Margfeldisáhrifin eru gríðarlega mikilvæg. Við höfum líka dregið fram gæði þessarar vöru og öryggið sem felst í því að hún er framleidd hér á landi. Við höfum líka dregið fram að finna megi fleiri leiðir til þess að styrkja og efla rekstur verksmiðjunnar og einnig til að þjóna öðrum hlutverkum sem við yrðum annars að standa að með ærnum tilkostnaði, svo sem að brenna orkuríkum úrgangsefnum. Það er þegar hafið en við gætum gert þar enn stærri hlut sem þó mundi kosta stórfé ef við gætum ekki brennt því hér á landi. Við yrðum kannski að flytja það út með ærnum flutningskostnaði og förgunargjaldi þar. Þannig höfum við dregið fram hér fleiri, fleiri þætti sem undirstrika bæði möguleika og mikilvægi þessarar verksmiðju og framleiðslu hennar.

Herra forseti. Ég tel því ekki viðunandi að hæstv. ráðherra ætli einungis að bíða átekta eftir úrskurðum dómstóla eins og ESA. Mér finnst það ekki viðunandi. Þetta mál þolir ekki bið. Stjórnvöld, ríkið er eigandi og hefur eigendaábyrgð á þessari verksmiðju. Ríkið það er jú við, það er allir Íslendingar og við höfum eigendaábyrgð á þessari verksmiðju, bæði til að styrkja hana og efla og gera rekstur hennar hagkvæmari, en líka til að verja hana gegn hugsanlega óeðlilegum viðskiptaháttum, alla vega meðan verið er að sanna að svo sé ekki.

Ég trúi því að Sementsverksmiðjan á Akranesi eigi sér alla möguleika, sterka og góða möguleika, ef hún fær bara að starfa í eðlilegu og sanngjörnu samkeppnisumhverfi og fær líka eðlilegan stuðning og bakhjarl, eigendabakhjarl, eins og hver og einn mundi veita sínu eigin fyrirtæki, og það er ríkið í þessu tilviki hjá okkur. Það eigum við að gera.

Ég tel að stjórnvöld ættu fyllilega að skoða það að leggja innflutningsgjöld --- þess vegna tímabundið --- á sement sem talið er að flutt sé inn á óeðlilega lágu verði þannig að samkeppni sé þá í lagi á meðan verið er að kanna þetta mál. Hver mundi sækja það ef hér leyfðist að flytja inn sement á lágu verði, Sementsverksmiðjan stæði það ekki af sér og ætti orðið erfitt með að starfa áfram þegar úrskurður kæmi og hann reyndist vera sá að þessi undirboð eða innflutningur hefði verið ólöglegur. Sementsverksmiðjunni hefði þá kannski verið lokað. Hver ætlar að axla þá ábyrgð, virðulegi forseti?

Herra forseti. Ég legg áherslu á að stjórnvöld axli eigendaábyrgð sína á verksmiðjunni, tryggi stöðu hennar og verji hana meðan verið er að búa svo um hnútana.

Herra forseti. Að lokinni umræðu um þessi mál óska ég eftir að báðum tillögunum verði vísað til iðnn.