Starfsemi Ríkisútvarpsins

Miðvikudaginn 06. nóvember 2002, kl. 13:45:27 (1100)

2002-11-06 13:45:27# 128. lþ. 24.1 fundur 71. mál: #A starfsemi Ríkisútvarpsins# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 128. lþ.

[13:45]

Fyrirspyrjandi (Ísólfur Gylfi Pálmason):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir þessi svör. Ég sakna þess þó, þar sem talað er um hálft starf í svæðisútvarpi Vestfjarða og hálft starf í svæðisútvarpi á Austurlandi, að ekki sé gert ráð fyrir starfsstöð í hinu nýja Suðurkjördæmi. Það þykir mér slæmt vegna þess að við borgum öll afnotagjöld af þessum miðli sem er okkur öllum mjög kær. Mér finnst mjög eðlilegt að það séu starfsstöðvar í þessum þremur landsbyggðarkjördæmum og þess vegna sakna ég þess mjög að við þær breytingar sem verða á Rás 2 skuli ekki gert ráð fyrir þessu.

Það skiptir auðvitað landsbyggðarkjördæmi miklu máli að góður og mikill fréttaflutningur sé frá landshlutabundnum stöðvum. Þess vegna sakna ég þess mjög að ekki skuli gert ráð fyrir þessu í þeim breytingum sem nú eiga sér stað. Ég geri mér grein fyrir því að Ríkisútvarpið er sjálfstætt fyrirtæki en engu að síður er hæstv. menntmrh. í raun ábyrgðarmaður þessa fyrirtækis af hálfu ríkisstjórnarinnar. Ég hvet hæstv. menntmrh. til að skoða þann möguleika að setja upp starfsstöð í hinu nýja Suðurkjördæmi.

Það kemur fram hér, samkvæmt þeim upplýsingum sem hæstv. menntmrh. veitir okkur, að 99,8% landsmanna ná útsendingum Ríkisútvarpsins. Við skynjum það hins vegar, þegar við ökum t.d. á þjóðvegunum, að Ríkisútvarpið dettur mjög gjarnan út á ákveðnum stöðum þar sem hægt er að ná sjálfstæðum útvarpsstöðvum á sama tíma. Þess vegna er auðvitað nauðsynlegt að bæta dreifikerfið.