Bygging menningarhúsa á landsbyggðinni

Miðvikudaginn 06. nóvember 2002, kl. 13:53:41 (1103)

2002-11-06 13:53:41# 128. lþ. 24.2 fundur 92. mál: #A bygging menningarhúsa á landsbyggðinni# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 128. lþ.

[13:53]

Menntamálaráðherra (Tómas Ingi Olrich):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir fyrirspurnina. Frá því að menntmrh. svaraði síðast fyrirspurn þingmannsins fyrir um ári, m.a. um undirbúning að byggingu menningarhúsa á landsbyggðinni, hafa áform ríkisstjórnarinnar um að taka þátt í að reisa menningarhús utan höfuðborgarsvæðisins þróast með eftirfarandi hætti:

Á Ísafirði er þess óskað að ríkið standi að því með heimamönnum að ljúka við endurgerð Edinborgarhúss, taka þátt í kostnaði við byggingu tónlistarsalar við Tónlistarskólann og að breyta gamla sjúkrahúsinu í safnahús fyrir skjalasafn og listasafn. Ráðuneytið hefur átt í viðræðum við Ísfirðinga um þessi mál og þær viðræður standa yfir.

Á Sauðárkróki hafa menn kosið að ráðast ekki í smíði menningarhúss að svo stöddu heldur eiga samstarf um menningarmál á öðrum forsendum og þá fyrst og fremst á sviði íþrótta- og æskulýðsmála.

Tvær skýrslur um menningarhús á Akureyri liggja fyrir. Sú fyrri var gerð af fulltrúum Akureyrarbæjar og hin síðari af bandarísku ráðgjafarfyrirtæki. Ég hef átt í viðræðum við fulltrúa Akureyrarbæjar um hvaða stefnu eigi að móta í þessum málum en einkum eru tveir kostir til skoðunar nú. Annars vegar að í einu húsi verði salur fyrir tónlistarstarfsemi og hins vegar leikhús og staðsetningin miðuð við hafnarsvæðið í miðbænum. Hinn kosturinn, sem er í raun og veru verið að skoða og er verið að klára skoðun á nú, er að tónlistarhús, fyrirlestrasalur og ráðstefnusalur yrði reistur á háskólalóðinni og nýttist fyrir háskólann sem í því tilfelli gæti fallið frá áætlunum sínum um að byggja tvo 230--250 sæta fyrirlestrasali. Í því tilfelli yrði reist 350 manna leikhús í miðbæ Akureyrar. Tónlistarskóli Akureyrar yrði tengdur tónlistarsalnum. Ekki hafa verið teknar ákvarðanir í þessum efnum en stefnt er að því að niðurstaða fáist fyrir árslok og grundvelli undirbúningsvinnunnar er nánast að verða lokið.

Í viljayfirlýsingu sem fylgir samningnum um samstarf ríkis og 16 sveitarfélaga á Austurlandi um menningarmál, sem gerður var í fyrra, er kveðið á um að á samningstímabilinu verði unnið að þátttöku ríkissjóðs í uppbyggingu fjögurra menningarmiðstöðva á Austurlandi. Í viljayfirlýsingunni er miðað við að fjárframlög ríkissjóðs til þriggja menningarhúsa verði samtals 51 millj. kr. og dreifist á þrjú ár. Fénu á að skipta með eftirfarandi hætti: Kirkju- og menningarmiðstöðin í Fjarðabyggð á Eskifirði, þar sem er aðstaða til tónleika og sýninga, fær 21 millj. kr. Menningarmiðstöðin Skaftfell í Seyðisfirði, sem leggur mesta áherslu á myndlist og sýningar, fær 9 millj. kr. til að ljúka endurbótum á húsinu. Menningarmiðstöðin í Hornafirði, þar sem áhersla er lögð á söfn, handverk, bókmenntir og aðstöðu fyrir fræðimenn, fær 21 millj. kr.

Á fjárlögum yfirstandandi árs var varið 17 millj. kr. til þessa verkefnis. Vonir standa til að hægt verði að tryggja áframhaldandi stuðning við stofnframkvæmdir með hluta af því fé sem koma mun inn fyrir sölu ríkisfyrirtækja.

Í fjárlagafrv. 2003 er gert ráð fyrir að um 9 millj. kr. styrkur verði veittur til að reka þessi þrjú hús. Í fyrrahaust skipaði menntmrh. starfshóp til að móta tillögur um menningarmiðstöð á Austur-Héraði. Hópurinn lagði fram tillögur í vor og komst að þeirri niðurstöðu að skynsamlegt væri að byggja hús í tengslum við stjórnsýslubyggingu í miðbæ Egilsstaða. Ekki hefur verið tekin formleg afstaða til þessara tillagna en geta má þess að einnig eru uppi hugmyndir einkaaðila um að byggja upp mjög mikla menningaraðstöðu á Eiðum.

Hugmyndir Vestmanneyinga um menningarhús í nýja hrauninu hafa ekki verið þróaðar frekar enn sem komið er en ráðuneytið hefur átt viðræður við nýja bæjarstjórn í Vestmannaeyjum um með hvaða hætti þeir vilji halda á því máli.

Ég hef látið í ljós þá skoðun að forgangsraða eigi byggingu þeirra menningarhúsa sem fjærst liggja höfuðborgarsvæðinu. Brýnt er að hvergi verði ráðist í þessa uppbyggingu nema fyrir liggi allar forsendur, ekki síst um kostnaðarskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga. Þær ákvarðanir liggja hins vegar ekki fyrir enn sem komið er gagnvart þeim stöðum sem um er að ræða. Með ðrum orðum: Framkvæmdir eru hafnar á Austurlandi og miðað er að því að klára sem fyrst hluta af þeim verkefnum sem þar eru í deiglunni. Það eru að verða komnar mjög sterkar forsendur fyrir því að taka ákvörðun um Akureyrarmálið. Það skiptir mjög miklu máli hvernig það mál er uppbyggt. Það þarf ekki einungis að líta á stofnkostnaðinn við þessi menningarhús heldur ber að líta mjög gaumgæfilega á rekstrarhlið málsins þannig að þeir fjármunir sem fara til liststarfseminnar í þessum húsum nýtist sem best en minni peningar fari í það að reka húsin sjálf. Þessi hugsun hefur verið lögð til grundvallar í síðustu athugunum varðandi menningarhúsið á Akureyri. Ég hygg að við séum að nálgast niðurstöðu í því máli.