Framhaldsskóli á Snæfellsnesi

Miðvikudaginn 06. nóvember 2002, kl. 14:06:08 (1108)

2002-11-06 14:06:08# 128. lþ. 24.3 fundur 113. mál: #A framhaldsskóli á Snæfellsnesi# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi JB
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 128. lþ.

[14:06]

Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason):

Herra forseti. Öflugt menntakerfi sem nær til allra landsmanna er forsenda velferðar og hagvaxtar. Framboð menntunar leggur grunn að samkeppnishæfni atvinnulífs og búsetu á hverjum stað. Það er mikil blóðtaka fyrir hvert byggðarlag að senda allt ungt fólk burt til menntunar frá 16 ára aldri og verður æ erfiðara eftir því sem skólaárið lengist, fjarveran eykst og fjölskyldubönd og rætur í heimahögum slitna. Það reynir mjög á ungt fólk á þessum árum og það er hluti góðra lífskjara að fjölskyldan geti veitt hvatningu og stuðning unglingum sínum í námi. Aukið námsframboð í heimabyggð styrkir sjálfsímynd byggðarinnar og hefur feikileg margfeldisáhrif.

Rannsóknir hafa enn fremur sýnt að menntun hefur áhrif á tekjur fólks síðar á lífsleiðinni. Í skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands kom fram að einmitt þeim var hættast að lenda í fátæktargildru sem höfðu minnsta menntun. Í nýsamþykktri byggðaáætlun er lögð þung áhersla á að efling menntunar og menntunar í heimabyggð fyrir fólk a.m.k. til 18 ára aldurs sé forsenda fyrir samkeppnishæfri búsetu um allt land. Þessu hafa Snæfellingar líka gert sér grein fyrir og þeir hafa á undanförnum árum sótt eftir því við menntmrn. og stjórnvöld að fá að stofna framhaldsskóla á norðanverðu Snæfellsnesi.

Í ágætu erindi sem bæjarstjóri Grundarfjarðar flutti á fundi Sambands sveitarfélaga í Borgarnesi í sumar segir, með leyfi forseta:

,,Rannsóknir sýna að í sveitarfélögum eins og á Snæfellsnesi, sem byggja afkomu sína að langmestu leyti á veiðum og vinnslu sjávarafurða, er menntunarstig almennt lægra en gerist t.d. á höfuðborgarsvæðinu. Betra aðgengi að menntun mun án efa stuðla að hærra menntunarstigi og skapa enn jákvæðara viðhorf til menntunar.

Fjárfesting felst einnig í því ef unga fólkið fær að eyða uppvaxtar- og mótunarárum í heimabyggð, þá eru ræturnar styrktar og meiri líkur á að það vilji búa á svæðinu á fullorðinsárum.``

Síðar segir, með leyfi forseta, í þessari ágætu ræðu Bjargar Ágústsdóttur:

,,Snæfellingar eiga þann draum að unga fólkið geti dvalist heima og notið góðrar menntunar, að samfélagið njóti þessa aldurshóps sem virkra þátttakenda, að fjölskyldur og þar með samfélagið allt þurfi ekki að reiða af hendi umtalsverða fjármuni til að kosta unga fólkið til náms og að ungt fólk þurfi ekki að verða af námi sökum fjárskorts.``

Herra forseti. Ég hef lagt eftirfarandi spurningar fyrir hæstv. menntmrh.:

,,1. Hvað dvelur ákvörðun um stofnun nýs framhaldsskóla á norðanverðu Snæfellsnesi sem stefnt hefur verið að á undanförnum árum?

2. Mun ráðherra beita sér fyrir því að veitt verði framlag í fjárlögum næsta árs til stofnunar slíks skóla eins og sveitarstjórnir og íbúar í Snæfellsbæ, Grundarfirði, Helgafellssveit og Stykkishólmi hafa sóst mjög eftir?``