Framhaldsskóli á Snæfellsnesi

Miðvikudaginn 06. nóvember 2002, kl. 14:17:02 (1112)

2002-11-06 14:17:02# 128. lþ. 24.3 fundur 113. mál: #A framhaldsskóli á Snæfellsnesi# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 128. lþ.

[14:17]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Hæstv. ráðherra sagði áðan að ekkert byggðamál væri jafnmikilvægt og framhaldsnám. Það er sannarlega rétt hjá honum. Það er merkilegt, herra forseti, að eftir að ráðherrann hefur gert grein fyrir þessari mikilvægu staðreynd skuli hann síðan þurfa að greina þingheimi frá því að vegna fjárlagaramma næsta árs sé ekki svigrúm til að aðhafast neitt. Það er dapurlegt vegna þess að þörfin er mikil en líka vegna þess að nú þegar liggja fyrir staðreyndir um hvernig hægt er að bjóða upp á framhaldsnám víða úti um land, vegna hinnar nýju tækni, þeirra möguleika sem eru á fjarkennslu og þeirra möguleika sem skólarnir hafa til samstarfs en höfðu ekki áður.

Hann nefndi skólann á Höfn í Hornafirði sem er á einangruðu svæði. Rétt er það. Sá skóli hefur hins vegar náð að bjóða upp á fjölbreytt nám vegna hinnar nýju tækni. Þeir möguleikar eru sannarlega til staðar og þess verðir að skoða þá við uppbyggingu framhaldsnáms.