Einelti

Miðvikudaginn 06. nóvember 2002, kl. 14:24:00 (1116)

2002-11-06 14:24:00# 128. lþ. 24.4 fundur 146. mál: #A einelti# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 128. lþ.

[14:24]

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Herra forseti. Ég vil spyrja hæstv. menntmrh. um stuðning hans við baráttuna gegn einelti.

Eins og menn þekkja af fréttum hefur Stefán Karl Stefánsson leikari barist mikilli og óeigingjarnri baráttu gegn einelti og fyrir aðstoð við fórnarlömb þess. Framtak hans hefur vakið verðskuldaða athygli og hann fengið stuðning frá fyrirtækjum. Hann hefur haldið 400 fyrirlestra í skólum endurgjaldslaust og hann fær hundruð tölvupóstsendinga á dag frá þeim sem við þetta búa. Síðastliðinn vetur fékk hann 48 símhringingar með beiðnum um að tala við börn sem voru við dauðans dyr af örvæntingu vegna eineltis. Ég hef sjálf séð skelfileg bréf frá börnum í slíkri aðstöðu sem þau hafa sent Stefáni.

Stefán Karl mun næstkomandi laugardag stofna samtök sem heita Regnbogabörn til að vinna gegn einelti og koma þessu fólki til hjálpar. Hann hefur ekki fengið neinn opinberan fjárstuðning til þeirrar vinnu. Tveir félagar, ungir menn, Sigurður Hólm Gunnarsson og Kristbjörn Björnsson, hafa einnig gert, nánast algerlega á eigin kostnað, mjög átakanlegan og áhrifaríkan heimildarþátt um einelti sem þeir nefna Einelti -- helvíti á jörð. Reyndar fengu þeir smástyrk frá Kvikmyndasjóði til gerðarinnar. Einnig hafa þeir haldið úti heimasíðu en þeir hafa ekki fengið neinn frekari fjárstuðning frá hinu opinbera og reyndar verið synjað um fjárstuðning, a.m.k. frá félmrn.

Einelti viðgengst í skólum landsins, á vinnustöðum og víðar í samfélaginu. Þeir sem fyrir því verða eru mjög vanmáttugir, eiga erfitt með að bregðast við því og bera þess oft merki ævilangt. Einstaklingar sem hafa reynslu af þessu böli hafa vakið umræðuna um einelti og hafa hafið þessa baráttu án stuðnings frá hinu opinbera.

Ég minni einnig á rausnarlega gjöf Bents Schevings Thorsteinssonar til rannsókna á einelti við Háskóla Íslands.

En ég vil spyrja hæstv. menntmrh., vegna þess að ekki hefur komið stuðningur til þessarar vinnu allrar frá hinu opinbera:

1. Hyggst ráðherra leggja baráttunni gegn einelti lið með fjárveitingum eða á annan hátt?

2. Hvað er gert nú þegar á vegum ráðuneytisins í baráttunni gegn einelti og til að aðstoða þá sem hafa orðið fyrir því?