Tilskipun um innri markað raforku

Miðvikudaginn 06. nóvember 2002, kl. 15:00:40 (1125)

2002-11-06 15:00:40# 128. lþ. 24.5 fundur 90. mál: #A tilskipun um innri markað raforku# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., Fyrirspyrjandi SJS
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 128. lþ.

[15:00]

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Þau eru um margt athyglisverð. Hér er upplýst, sem ég vissi a.m.k. ekki fyrir, að það hafi verið formleg ríkisstjórnarákvörðun og þar með hafi báðir stjórnarflokkarnir staðið á bak við það á sínum tíma, að reyna ekki að fá undanþágu heldur skuli stefnt að því að fella efni tilskipunarinnar inn í EES-samninginn. Þar með fór af stað það ferli sem síðan hefur haldið áfram.

Hér kemur auðvitað upp spurningin um orðalag og túlkun, hvað teljast ,,veruleg vandkvæði`` og spurningin er um hvaða hugur fylgir máli af hálfu þeirra sem reka erindin. Lýsing hæstv. ráðherra verkaði á mig eins og að menn hefðu ósköp auðmjúkir farið til Brussel með sendinefnd, á fyrri árum og einnig síðar, og numið erkibiskups boðskap um hver væri skilningur Evrópusambandsins á þessu, hvað væri líklegt og ekki líklegt að menn fengju. Þar við er látið sitja á sama tíma og aðrar þjóðir eru í hörkusamningaviðræðum um að fá undanþágur. Miðað við upplýsingar sem ég hef tiltölulega nýlegar frá Evrópusambandinu og einstökum aðildarríkjum þá eru a.m.k. þrjú ríki í umsóknarhópnum, Malta, Kýpur og Eistland, að reyna að sækja sér meiri og minni undanþágur frá þessari tilskipun og alls ekki talið ólíklegt miðað við mínar heimildir að þau fengju þær, a.m.k. að einhverju leyti.

Varðandi undanþágu frá öðru en vinnslunni, sem er mögulegt samkvæmt því sem hæstv. ráðherra segir, munar náttúrlega um minna en það ef undanþága fengist frá kröfunni um að aðskilja framleiðslu og dreifingu. Það munar náttúrlega um minna en það við þær aðstæður sem eru hér á Íslandi þar sem orkufyrirtækin eru eiginlega í öllum tilvikum með þetta samþætt.

Mér finnst, herra forseti, að síðustu, að sá vandræðagangur sem hefur einkennt framgöngu ríkisstjórnarinnar í þessu og sú staðreynd að ekkert frv. er enn fram komið mörgum mánuðum eftir að við áttum að hafa fullgilt innleiðingu tilskipunarinnar, segi náttúrlega sína sögu.