Orkuverð á orkuveitusvæði Orkubús Vestfjarða

Miðvikudaginn 06. nóvember 2002, kl. 15:12:36 (1132)

2002-11-06 15:12:36# 128. lþ. 24.6 fundur 160. mál: #A orkuverð á orkuveitusvæði Orkubús Vestfjarða# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., iðnrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 128. lþ.

[15:12]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég get ekki þulið hér taxta. Ég verð að segja það eins og er. Mér þykir það leitt en ég kann þá ekki utan að.

Varðandi arðinn þá er það almennt svo að hann gengur til eigendanna hvort sem það er í þessu fyrirtæki eða öðrum. Þegar hv. þm. Árni Steinar Jóhannsson spyr hvort tekin hafi verið ákvörðun um að Orkubú Vestfjarða verði rekið sem sérstakt fyrirtæki þá er það ekki svo. Það sem ég sagði hins vegar í svari mínu var að ekki væru uppi áform um hækkun gjaldskrár umfram verðlagshækkanir á næstu árum. Það var það sem ég sagði.

Hvað varðar framtíð þessa ágæta fyrirtækis þá er það eins og allir vita 100% í eigu ríkisins alveg eins og Rarik. Þess vegna hefur verið talað um það að sameina fyrirtækin. Það mál er hins vegar ekki komið það langt að ég geti greint nákvæmlega frá niðurstöðum. Allt er þetta meira og minna samtengt, raforkulagafrv. og síðan ýmsar hugsanlegar breytingar í sambandi við raforkufyrirtækin og raforkumál almennt.

Lykillinn að því að við getum fengið svör við ákaflega mörgum spurningum er sá að við afgreiðum raforkulagafrv. frá Alþingi. Þegar það er afstaðið verður miklu betra að gera sér grein fyrir því hvernig best er að haga rekstri orkufyrirtækjanna almennt. Þá þarf náttúrlega að huga að hagræðingu og ýmsu. Auðvitað hlýtur það að vera aðalatriðið að bæði hinn almenni neytandi og fyrirtækin í landinu geti búið við bærilega viðunandi orkuverð. Það hlýtur að vera aðalatriði málsins. Að því vil ég alla vega vinna.