Orkuverð á Sauðárkróki

Miðvikudaginn 06. nóvember 2002, kl. 15:14:44 (1133)

2002-11-06 15:14:44# 128. lþ. 24.7 fundur 161. mál: #A orkuverð á Sauðárkróki# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., Fyrirspyrjandi ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 128. lþ.

[15:14]

Fyrirspyrjandi (Árni Steinar Jóhannsson):

Virðulegi forseti. Eins og þingheimi er kunnugt keyptu Rafmagnsveitur ríkisins Rafveitu Sauðárkróks nýlega. Í framhaldi af því hafa borist upplýsingar og kvartanir frá iðnfyrirtækjum á Sauðárkróki þess efnis að í framhaldi af yfirtökunni hafi orkuverð hækkað stórlega. Að vísu hækkaði orkuverð mjög verulega til að byrja með en hækkanir voru dregnar til baka á síðari stigum, sem bendir til þess að upplýsingaöflun og gagnrýni hafi e.t.v. haft einhver áhrif. Stór iðnfyrirtæki, miðað við bæjarstærð á Sauðárkróki, eru nefnd til sögunnar eins og Loðskinn ehf., Sauðárkróksbakarí og Efnalaug Sauðárkróks, bara sem dæmi. Síðan hefur ríkið nýverið selt hlut sinn í Steinullarverksmiðjunni hf. á Sauðárkróki. Það er mjög mikilvægt að fylgja því eftir til hvers ráðstafanir eins og þessi yfirtaka leiða. Ég vil því spyrja hæstv. iðnrh.:

1. Hvernig hefur orkuverð til iðnfyrirtækja þróast eftir að Rarik tók við rekstri Rafveitu Sauðárkróks, t.d. til Steinullarverksmiðjunnar hf., Loðskinns ehf., Sauðárkróksbakarís og Efnalaugar Sauðárkróks?

2. Hvernig gerir Rarik ráð fyrir að raforkuverð til fyrrgreindra aðila þróist á þessu ári og næstu tveimur árum, 2002--2004?

Mér hafa borist upplýsingar um að á þessu tímabili hafi verið tilkynntar verulegar hækkanir eða hækkunaráform til þessara iðnfyrirtækja og orkunotenda.