Leyniþjónusta

Miðvikudaginn 06. nóvember 2002, kl. 15:44:14 (1145)

2002-11-06 15:44:14# 128. lþ. 24.9 fundur 136. mál: #A leyniþjónusta# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 128. lþ.

[15:44]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Ég vil byrja á að taka fram að ég tel ekki ástæðu til að nota orðið leyniþjónustu um þá löggæslustarfsemi sem hv. fyrirspyrjandi vísar til. Það liggur fyrir að lög kveða á um að lögreglan hafi eftirlit með ýmsum þáttum sem snúa að innra öryggi ríkisins. Rökstuðningur hv. fyrirspyrjanda vekur líka nokkra undrun mína. Þar eru fullyrðingar sem ég vísa á bug.

Þetta mál, eins og það hefur verið rætt, snýr að því að treysta betur réttaröryggi almennings og efla eftirlit með þessari starfsemi lögreglunnar. Skal ég nú skýra þetta mál frekar.

Samkvæmt 1. gr. lögreglulaga er það hlutverk lögreglu að gæta almannaöryggis og halda uppi lögum og reglu, leitast við að tryggja réttaröryggi borgaranna og vernda eignarrétt, opinbera hagsmuni og hvers konar lögmæta starfsemi. Nánari útlistun á því hvernig lögreglan sinnir þessum og öðrum verkefnum er síðan að finna í lögreglulögunum.

Í 5. gr. laganna segir að meðal sérstakra verkefna ríkislögreglustjóra sé að starfrækja lögreglurannsóknardeild sem rannsaki landráð og brot gegn stjórnskipun ríkisins og æðstu stjórnvöldum þess. Í samræmi við ákvæði laga hefur lögreglan á liðnum árum sinnt þessu verkefni og starfrækir ríkislögreglustjóri m.a. deild af þessu tagi. Verkefni deildarinnar er að rannsaka brot gegn stjórnskipun ríkisins og æðstu stjórnvöldum og sinna eftirgrennslan og áhættugreiningu.

Ég vakti máls á því fyrir nokkru að æskilegt væri að skoða ofan í kjölinn hvort ekki væri rétt að setja sérstaka löggjöf um þessa starfsemi sem sumir hafa kosið að kalla leyniþjónustustarfsemi --- ég notaði reyndar ekki það orð. Ástæðan fyrir því er ekki sú að heimildir skortir til að sinna þessu verkefni. Þær eru eins og ég rakti skýrar og ótvíræðar. Ástæðan er mun frekar sú að skýrari ramma skortir í löggjöfina utan um þessa starfsemi, þ.e. nánari útlistun á í hverju hún eigi að felast o.s.frv. og ekki síður hvernig haga skuli eftirliti með þessari starfsemi.

Í Danmörku og Noregi er þessum málum komið fyrir með sama hætti og hér en þó þannig að fjallað er um þetta verkefni lögreglunnar í sérstakri löggjöf. Þar er m.a. kveðið á um að eftirlit með þessari starfsemi sé á hendi sérstakrar þingnefndar. Mér finnst slíkt fyrirkomulag áhugaverður kostur. Þessi starfsemi lögreglunnar er að sumu leyti frábrugðin hefðbundinni lögreglustarfsemi sem gjarnan gengur út á rannsóknir á afbrotum. Þessi starfsemi miðar meira að því að kortleggja hvort almenningi og stjórnvöldum stafi hætta af aðgerðum og áætlunum sem beinast beint gegn ríkisvaldinu og æðstu stjórnvöldum þess, þar á meðal Alþingi.

Á undanförnum árum hefur sjónum einkum verið beint að hryðjuverkum í þessu sambandi. Þar sem mikilvægt er að almenningur beri traust til starfsemi af þessum toga þarf að hafa virkt og traust eftirlit með henni. Starfsemin er eins og liggur í hlutarins eðli einnig gríðarlega viðkvæm. Því verður að gera skýrlega lögákveðið að þeir sem annast eftirlit með henni séu bundnir trúnaði.

Í kjölfar hryðjuverkaárásanna á Bandaríkin fóru ríki heims ítarlega yfir löggjöf sína og framkvæmd á þessu sviði. Jafnframt var í mörgum ríkjum hafin rannsókn á því hvort hryðjuverkastarfsemi þrifist þar. Við vorum að sjálfsögðu ekki undanskilin í því sambandi. Aukin umsvif á þessu sviði ýttu fremur en annað á að ég vakti máls á þessu mikilvæga máli.

Margir höfðu af því áhyggjur í kjölfar hryðjuverkanna í Bandaríkjunum að lögregluyfirvöld mundu grípa tækifærið til að skerða ýmis sjálfsögð mannréttindi, m.a. friðhelgi einkalífs. Ég hef ekki sérstakar áhyggjur af því en mikilvægt er engu að síður að almenningi sé ljóst að eftirlit sé haft með allri starfsemi lögreglu af þessum toga.

Hv. þm. spyr einnig hvers konar upplýsingum sé safnað og hvaða reglur gildi um þessa starfsemi. Eðli máls samkvæmt er ekki hægt nema í grófum dráttum að lýsa verkefnum áðurnefndrar deildar hjá embætti ríkislögreglustjóra, eins og ég hef þegar gert. Um þessa starfsemi gilda ákvæði lögreglulaga, m.a. að því er varðar eftirlit. Í dag er eftirlit með starfsemi lögreglu í höndum dómsmrh. og ríkislögreglustjóra í umboði ráðherra, ríkissaksóknara hvað ákveðna þætti varðar og síðan að sjálfsögðu dómstóla í þeim málum sem þangað rata.

Norðurlöndin hafa talið ástæðu til að taka upp sérstakt fyrirkomulag á eftirliti með þeirri starfsemi lögreglunnar sem hér er til umræðu. Ég er þeirrar skoðunar að eðlilegt sé að við skoðum og ræðum ítarlega hvort ekki eigi að vera sambærilegar reglur um þetta atriði hér á landi en hef ekki tekið beina afstöðu til þess máls á þessu stigi.