Norðlingaölduveita og Þjórsárver

Fimmtudaginn 07. nóvember 2002, kl. 10:38:14 (1160)

2002-11-07 10:38:14# 128. lþ. 25.91 fundur 229#B Norðlingaölduveita og Þjórsárver# (aths. um störf þingsins), SvH
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 128. lþ.

[10:38]

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Komið er á daginn að framkvæmdaraðilar hafa falsað skýrslur sem lúta að úttekt á Þjórsárverum. Þetta virðist óyggjandi enda þótt hæstv. viðskrh. sjái sér fært að bera vísindamenn brigslyrðum um að annarlegar ástæður ráði áliti þeirra. Þau svör sem komu fram í máli hæstv. ráðherra voru afar lauslegar yfirbreiðslur, svo að ekki sé meira sagt, á málinu.

Ég minnist þess að þegar sá sem hér stendur tók fyrst sæti á Alþingi í apríl 1964 lýsti hann því yfir við þáv. iðnrh. Jóhann Hafstein að hann mundi aldrei samþykkja skerðingu Þjórsárvera, en þá höfðu þessi mál verið mjög á dagskrá vegna rannsókna Scotts hins breska og hann hafði bent á það einstæða dýrmæti sem þessi fuglaparadís er.

Þess vegna vara ég stjórnvöld við framhaldinu ef það er ætlunin að halda áfram sem hefur horft um sinn, að skerða frekar Þjórsárver. Ég vara stjórnvöld við því vegna þess að það mun leiða til ófyrirsjáanlegra átaka þar sem ekkert verður eftir gefið til þess að verja þessa dýrmætu perlu.