Skýrsla umboðsmanns Alþingis 2001

Fimmtudaginn 07. nóvember 2002, kl. 11:46:06 (1183)

2002-11-07 11:46:06# 128. lþ. 25.1 fundur 228#B skýrsla umboðsmanns Alþingis 2001# (munnl. skýrsla), JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 128. lþ.

[11:46]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég endurtek það að ég tek undir að það þurfi að taka á þessu í lögum og er síður en svo á móti því. Ég hvet til þess. Hins vegar er það bara þannig að hæstv. ráðherra situr uppi með það að eitthvað er um að hlutafélög séu í eigu ríkisins og það hefur verið sótt eftir upplýsingum út úr þeim hlutafélögum. Hæstv. ráðherra hefur hvað eftir annað auðvitað fylgst með því að neitað hefur verið að veita þær upplýsingar á grundvelli þess að ekki megi gefa þessa hluti upp. Þess vegna finnst mér það fagnaðarefni að hæstv. fyrrv. ráðherra úr ríkisstjórninni skuli koma hingað og heimta að menn breyti þessu fyrirkomulagi. Það hlýtur að eiga að gilda um hlutafélög á vegum ríkisins líka, ekki bara Reykjavíkurborgar eða einhverra fyrirtækja sem mætti jafna saman við Orkuveitu Reyjkavíkur.