Skýrsla umboðsmanns Alþingis 2001

Fimmtudaginn 07. nóvember 2002, kl. 12:07:14 (1188)

2002-11-07 12:07:14# 128. lþ. 25.1 fundur 228#B skýrsla umboðsmanns Alþingis 2001# (munnl. skýrsla), JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 128. lþ.

[12:07]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vona að mér sé óhætt að fagna stefnubreytingu hv. 1. þm. Norðurl. e. varðandi þau atriði sem hann talaði um. Hann orðaði það þannig að hann mundi gera sömu kröfu til sveitarfélaga hvað varðar upplýsingaskyldu fyrirtækja í þeirra eigu og opinberra stjórnvalda. Ég skildi hann þannig að þar með ættum við að endurskoða það fyrirkomulag sem hefur verið varðandi eignarhald og svör ráðherra þegar beðið hefur verið um upplýsingar frá hlutafélögum sem alfarið eru í eigu ríkisins, eins og frá Símanum, frá Sementsverksmiðju ríkisins eða öðrum slíkum fyrirtækjum og eins og hér um ræðir, þ.e. Orkuveitu Reykjavíkur.

Á öðrum stað komst hv. þm. svo að orði að þannig hefði verið litið á að eðlið breyttist í hlutafélögum þegar búið væri að selja einhver hlutabréf í þeim. Það er ekki rétt. Það hefur legið fyrir í svörum frá hæstv. ráðherrum að sé um að ræða hlutafélag, þó að það sé alfarið í eigu ríkisins, þá sé ekki skylda til að upplýsa þingið um það sem spurt er um. Þetta hefur ítrekað komið fram. Ég fagna því ef menn eru farnir að átta sig á því núna að svona eigi þetta ekki að vera. Ég get alveg fallist á að hið sama eigi að gilda um Orkuveitu Reykjavíkur. En ég bendi á að þar fóru menn þó ekki þá leið sem farin hefur verið farin á vegum hins opinbera. Þar skipuðu menn ekki stjórn fyrirtækisins bara með því að láta borgarstjórann útnefna þá sem ættu að vera í stjórn eða eitthvað slíkt. Hér er það einn ráðherra sem ákveður stjórn fyrirtækja séu þau alfarið í eigu ríkisins.