Skýrsla umboðsmanns Alþingis 2001

Fimmtudaginn 07. nóvember 2002, kl. 12:17:58 (1194)

2002-11-07 12:17:58# 128. lþ. 25.1 fundur 228#B skýrsla umboðsmanns Alþingis 2001# (munnl. skýrsla), ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 128. lþ.

[12:17]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég leyfi mér að telja að þetta sé misminni hjá hv. þm. og fyrrv. hæstv. ráðherra því að hann lýsti því yfir skýrt og skorinort að hann vildi ekki selja Símann. Hann vildi gera Símann að hlutafélagi en ekki selja hann og um þetta eru til skráð gögn.

Varðandi leyndina þá er það alveg rétt að sú krafa hefur komið fram hjá stjórnendum erlendra símafyrirtækja og þess vegna orkufyrirtækja að fá að liggja í friði undir leyndarhjúp. Það er alveg rétt og þeir hafa viljað fá sem víðtækasta samtryggingu í því efni. En krafan frá almenningi rís núna um að opna þær stofnanir og taka þær undan slíkri leyndarhulu. Og þegar allt kemur til alls lúta þær spurningar sem beint hefur verið til þessara stofnana og stjórnvalda sem eru ábyrg fyrir þeirra hönd fyrst og fremst að vafasömum vinnubrögðum eða öllu heldur að menn vilja upplýsa um vinnubrögð til að koma í veg fyrir að eitthvað vafasamt sé á ferðinni, vilja fá upplýsingar um hugsanlegt brask og leyndarmakk, bruðl með peninga sem þegar allt kemur til alls eru í eigu almennings og allar upplýsingar sem að því lúta eiga að vera almenningi opnar.