Starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 2001

Fimmtudaginn 07. nóvember 2002, kl. 12:53:53 (1201)

2002-11-07 12:53:53# 128. lþ. 25.2 fundur 227#B starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 2001# (munnl. skýrsla), HBl
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 128. lþ.

[12:53]

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég þakka hv. 5. þm. Vesturl., Gísla S. Einarssyni, fyrir það sem hann lagði hér til mála og þau ummæli sem hann lét falla um Ríkisendurskoðun. Hann vék að því í ræðu sinni að nauðsynlegt væri að Alþingi fylgdi betur eftir athugun á fjárlagafrv. hverju sinni en gert hefði verið. Ég vil í þessu sambandi rifja upp að hér á árum áður sat hagsýslustjóri Gísli Blöndal fundi fjárln. Ég man eftir því en ég hygg að síðar hafi ekki þótt rétt að svo háttsettur maður úr fjmrn. sæti fundi nefndarinnar. Ég hygg að ríkisendurskoðandi hafi líka á sínum tíma setið fundi fjárln. en það var ekki talið rétt að halda þeim vinnubrögðum áfram. Ég veit ekki af hverju það var því enda átti ég ekki sæti í nefndinni. Ég vil á hinn bóginn minna á að starfsmaður fjárln. vann á sínum tíma í Ríkisendurskoðun. Ef fjárln. telur að hún þurfi á meiri sérfræðiaðstoð að halda en hún hefur í verkum sínum við undirbúning fjárlaga og til þess að fylgja þeim eftir tel ég rétt að athugað verði við gerð fjárlaga hvort nefndin vilji þá leggja til að hún fái frekari fjárheimildir til þess að styrkja stöðu sína við athugun á fjárlagafrv. Þetta hlýtur að vera mat nefndarinnar sjálfrar. Ég hef, eins og hv. þingmanni er kunnugt, lagt fram tillögur mínar við samningu fjárlaga og á síðan eftir að ræða við fjmrh. og formann fjárln. um þau atriði sem ég tel rétt að gera athugasemdir við.

Ég vil líka vekja athygli á því að nú eru tíðkuð vinnubrögð sem ég hygg að ekki hafi verið áður, að þeir einstöku málaflokkar sem falla undir einstakar fagnefndir eru sendir til þeirra til meðhöndlunar þannig að þær hafa þá aðstöðu til þess að gera athugasemdir til fjárln. varðandi þau málefni sem að þeim snúa. Ég hygg því að við meðferð málsins á Alþingi sé reynt að hafa þann hátt á sem hv. þm. telur æskilegan. Jafnframt hygg ég að ljóst sé að Ríkisendurskoðun hljóti eftir atvikum og eins og hún sér ástæðu til að fylgja eftir ályktunum og skýrslum sem hún hefur frá sér sent.

Varðandi þau ummæli sem hv. 10. þm. Reykv. viðhafði áðan komu þau ekki á óvart. Þau lýstu því almennt séð hvaða augum hann lítur á þjóðfélagið og samskipti ríkis og einkaaðila. Má segja að stundum sé erfitt að greina hvort hann telji yfirleitt rétt að ríkissjóður skuli vera til, a.m.k. má glögglega heyra á ummælum hv. þm. að hann telur að umsvif ríkisins séu of mikil án þess að ég hafi heyrt hann nákvæmlega gera grein fyrir því með hvaða hætti hann vilji draga úr þeim. Kannski væri fróðlegt að fá upplýsingar um það. Veit ég raunar ekki hvort hann er þá að ræða hvort rétt sé að sveitarfélögin fái til sín frekari verkefni frá ríkinu eða hvaða augum hann lítur á það. Hitt hygg ég að sé í áttina við trúboð þegar hann heldur því fram að hin styrka hönd eigandans sé ávallt til staðar þannig að fé sem einstaklingar hafa handa á milli sé aldrei illa varið. Þó að sagt sé að sjálfs sé höndin hollust hefur þó komið fyrir að einstakir menn hafa þurft á einhverjum leiðbeiningum að halda. Ég hygg að líka séu til dæmi um að einkafyrirtæki hafi orðið gjaldþrota af þeim ástæðum að illa hefur verið farið með fé og hálfgerð ævintýramennska höfð í frammi. Þessi almennu peningalegu boðorð sem hv. þm. setti hér fram geta aldrei orðið mín boðorð og ekki Sjálfstæðisflokksins heldur eins og ég horfi til stefnumiða hans, markmiða og starfsemi.

Það væri auðvitað skemmtilegt undir öðrum kringumstæðum að ræða almennt hvert skuli vera hlutverk Alþingis, einstakra alþingismanna, hvernig rétt sé að skipta verkefnum milli einkareksturs og hins almenna, hver ábyrgðin skuli vera í einstökum tilvikum o.s.frv. Ég man t.d. eftir því þegar ég beitti mér fyrir því á sínum tíma að samið yrði við hlutafélag um að fara í Hvalfjarðargöng. Þá töldu ýmsir hér það ævintýramennsku af minni hálfu og að ég væri þar að fara að spila happdrætti með fé ríkissjóðs. Ég hygg á hinn bóginn, eins og málum er nú komið, að flestir séu mér sammála um að sú framkvæmd hafi verið nauðsynleg og hafi reynst vel. Það kemur raunar fram í umræðum manna að þeir geta vel hugsað sér að halda áfram á sömu braut í sambandi við ýmsar framkvæmdir í samgöngumálum. Ég hef þar sérstaklega nefnt t.d. hvernig hægt sé að afla fjár til að stytta leiðina milli Reykjavíkur og Akureyrar. Þá hef ég einmitt farið inn á einkarekstrarsviðið og óskað eftir samvinnu við einkaaðila um þá framkvæmd. Auðvitað er gott að hafa þarna visst samspil og samstarf.

[13:00]

Ég vil út af ummælum hv. þm. segja að ég áttaði mig ekki alveg á því hvað hann átti við þegar hann talaði um að Ríkisendurskoðun gæti ekki endurskoðað sjálfa sig. Auðvitað hlýtur Ríkisendurskoðun að endurskoða rekstur sjálfrar sín fyrir sig til þess að geta staðið betur að málum eins og hver heiðarleg stofnun á að gera og ég hygg að ríkisendurskoðandi hafi kannski ríkari þörf til að gera en aðrir. En á hinn bóginn skipar forseti Alþingis endurskoðanda til að fara yfir fjárreiður Ríkisendurskoðunar. Sá endurskoðandi er Guðmundur Skaftason, fyrrverandi hæstaréttardómari, sem hefur um áratugi notið mikils trausts og verið talinn einn af merkustu endurskoðendum og lögfræðingum þessa lands, þannig að ég hygg að þar sé ekki í kot vísað og ég hygg að enginn muni draga í efa að hann ræki þau störf sín mjög vel og við þurfum af þeim sökum ekki að vera með neinar vangaveltur um það að Ríkisendurskoðun sé ekki endurskoðuð með faglegum hætti og eins og rétt sé að gera.

Ég vil líka segja að það kom mér á óvart hvernig hv. þm. talaði til Alþingis eins og Alþingi og starfsemi þess væri ekki endurskoðuð. Þetta er auðvitað mikill misskilningur. Ríkisendurskoðun endurskoðar reikninga Alþingis hverju sinni og auðvitað er forsn. Alþingis gerð grein fyrir því eins og gert er um aðrar opinberar stofnanir. Ef hins vegar er um einhver alvarleg atriði að ræða sem Ríkisendurskoðun vill vekja sérstaka athygli á, þá er það gert þegar ríkisreikningur er lagður fram eins og um allar opinberar stofnanir.

Ég hygg að mjög erfitt sé að finna þeim orðum stað að Ríkisendurskoðun standi ekki faglega að því að endurskoða Alþingi. En á hinn bóginn, ef hv. þm. telur að rétt sé að hafa þar annan hátt á og að Ríkisendurskoðun eigi þar hvergi nærri að koma vegna þess að hún er ein af þeim stofnunum sem heyrir undir Alþingi þó hún vinni algjörlega sjálfstætt og Alþingi hafi stjórnsýslulega ekkert með þá stofnun að gera nema að þessu leyti, ber á henni fjárhagslega ábyrgð, þá vil ég beina því til hv. þm. að hann fylgi þeirri skoðun sinni eftir með lagafrv. því óhjákvæmilegt er, til þess að skoðun hans nái þar fram að ganga, að breyta lögum.

Að óbreyttum lögum hlýtur Ríkisendurskoðun að hafa um það að segja og ákveða hvort hún sjálf eða endurskoðandi sem hún velur, endurskoðar Alþingi. Þetta er algjörlega ljóst og algjörlega ástæðulaust að vera að reyna að draga fram að einhver vafi leiki á því að þar sé rétt unnið eða gáleysislega. Ég vísa því algjörlega á bug ef vangaveltur um þau efni eru hafðar hér uppi.

En hitt er rétt sem hv. þm. sagði að umsvif Alþingis hafa verið að vaxa, ekki einungis vegna þess að tilhneiging er til þess hér innan lands að verkefni verði flóknari og erfiðari en ella, ekki einungis vegna þess að starfsskilyrði þingmanna hafa verið bætt. Þingmenn eiga nú kost á því að fá sér til aðstoðar sérfræðinga sem ekki var hér áður. Þingnefndir geta fengið aðstoð við að skila nefndarálitum sem ekki var hér áður og þingmenn urðu sjálfir að skrifa þau nefndarálit eins og ég varð að gera á þeim tíma sem ég sat í þingnefndum, þá gat ég ekki vísað því til einhvers starfsmanns Alþingis að verða mér til aðstoðar og hjálpar í því að skila nefndaráliti og þar fram eftir götunum.

En á hinn bóginn tel ég að það sé af hinu góða að tekist skuli hafa að bæta starfsskilyrði alþingismanna þannig að þeir eru betur undir það búnir en áður að rækja skyldur sínar. Ég tel að það sé einhliða áhersla og röng áhersla þegar verið er að gefa í skyn að aukin útgjöld Alþingis séu endilega vegna þess að hér sé meiri óráðsía en áður.

Ég vil líka vekja athygli á því að erlend umsvif Alþingis hafa vaxið eins og erlend umsvif annarra þinga hafa vaxið. Þetta var sérstakt áhyggjuefni sem kom upp á fundi með okkur þingforsetum hinna norrænu þinga og við höfum tekið ákvörðun um að ræða það mál sérstaklega með hvaða hætti þjóðþingin eiga að koma inn í alþjóðlega starfsemi og hvernig samskiptum einstakra þjóðþinga skuli vera háttað til þess að þeir fjármunir sem við leggjum fram í því skyni skili sér og þeir séu vel nýttir.

En auðvitað er það rétt sem hv. þm. sagði áðan að öll umsvif, hvort sem þau eru í einkalífi, milli fyrirtækja eða opinberra stofnana, hljóta að vera þannig að stundum fellur til kostnaður vegna atvika sem ekki fela í sér beinharðan ávinning eða vinnu, því við erum nú einu sinni manneskjur og við þurfum líka á slíku að halda og mannleg samskipti milli þjóðþinga, milli stjórnmálamanna, milli bisnessmanna, hafa líka mikið að segja.

Ekki er hægt að halda því fram að slík samskipti séu af hinu illa endilega, fremur en hægt er að halda því fram t.d. að alþingismenn sem vinna fyrir stór kjördæmi sem eru kannski fjarri þinginu sjálfu, þurfi að leggja á sig meiri kostnað og meiri fyrirhöfn en þeir sem eru þingmenn Reykjavíkur og gefa sig lítið kannski að almennri kynningarstarfsemi meðal kjósenda sinna.

Ég vil í því sambandi aðeins víkja að því efni sem ég tel að ávallt hljóti að vera mjög til umhugsunar, hvort ekki sé kominn tími til að alþingismenn reyni að koma því svo fyrir að þeir geti t.d. verið heima hjá sér eina helgi í mánuði, verið með fjölskyldu sinni eina helgi í mánuði. Það mundi vera mikill ávinningur fyrir okkur sem erum þingmenn úti á landi ef við gætum slíkt.

En auðvitað hefur það persónulegan kostnað í för með sér og auðvitað hefur það kostnað í för með sér fyrir Alþingi ef þingmenn standa sig vel í stykkinu og legga mikið á sig til þess að þjóna því sem þeim hefur verið trúað fyrir.