Starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 2001

Fimmtudaginn 07. nóvember 2002, kl. 13:08:10 (1202)

2002-11-07 13:08:10# 128. lþ. 25.2 fundur 227#B starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 2001# (munnl. skýrsla), GE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 128. lþ.

[13:08]

Gísli S. Einarsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég nota þetta umræðuform til að taka undir og leggja áherslu á það sem ég var að segja, ekki til þess að vera með málefnaágreining.

Ég vil taka undir með hv. þm. Halldóri Blöndal um að skoða eigi stöðu fjárln. með tilliti til fjárlagagerðar. Skoðun mín er sú að gera þurfi betur en nú er gert. Það er mín persónulega skoðun. Ég get ekki talað hér fyrir fjárln. En ég tel að við fáum betri fjárlög með meira eftirliti og meiri og betri aga en mér finnst vera við fjárlagagerðina sem þó hefur, ég vil taka það fram, á þeim átta ára ferli sem ég hef verið við fjárlagavinnuna, batnað mjög.

Síðan langar mig að segja um skýrslur Ríkisendurskoðunar. Ég tel að þeim skýrslum sem fara til fagnefnda þurfi að ljúka með nefndaráliti frá viðkomandi fagnefnd. Ég tel að það væri mjög til hins betra og mundi skapa verulegt aðhald. Ég tel að gera þurfi þá úttekt sem ég benti á, virðulegur forseti, varðandi fjárlagabeiðnir og fjárlagatillögur, og það væri ágætt ef menn mættu vera að að hlusta á það, ég tel nauðsynlegt að gera eins konar hagkvæmniúttekt með samanburði á þessum tveimur þáttum sem ég nefndi, þ.e. beiðni um fjárframlög við fjárlagagerðina og síðan á fjárlögum með tilliti til þess árangurs sem næst út úr fjárlagagerðinni.