Starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 2001

Fimmtudaginn 07. nóvember 2002, kl. 13:10:24 (1203)

2002-11-07 13:10:24# 128. lþ. 25.2 fundur 227#B starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 2001# (munnl. skýrsla), PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 128. lþ.

[13:10]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hv. 1. þm. Norðurl. e., Halldór Blöndal, spurði mig af hverju ég hefði ekki lagt neitt til sem minnkaði umsvif ríkisins. Ég er margbúinn að leggja sitthvað til. Ég er margbúinn að leggja til t.d. að hlutur ríkisins í Landsvirkjun verði seldur og fyrirtækið verði einkavætt. Ég hef stutt einkavæðingu bankanna mjög eindregið, verulega eindregið, herra forseti, og hefði viljað ganga miklu hraðar fram í því máli.

Ég hefði viljað selja Landssímann, sérstaklega meðan hann var í háu verði, þá ýtti ég á það að hann yrði seldur en það gekk ekki vegna tregðu einhvers staðar.

Ég hef lagt til að Íbúðalánasjóður verði seldur, einkavæddur. Ég skil ekki hvað ríkið er að vasast í slíkum viðskiptum, þessari fjármálaumsýslu. Ég mundi vilja að menntakerfið yrði einkavætt meira en gert er og heilbrigðiskerfið. Og ég hef almennt þá skoðun að ríkið eigi að vera lítið þannig að skattpíningu almennings linni. Ég hef lagt til flatan tekjuskatt á allan almenning. Þetta hef ég lagt til, herra forseti. Það að ég hafi ekkert lagt til að minnka umsvif ríkisins er bara ekki rétt.

Það sem gerist þegar einstaklingur gerir mistök, sem þeir gera að sjálfsögðu eins og aðrir, þá tapar hann fé og hann dettur út af markaðnum. Það er munurinn. Þegar opinberir aðilar gera mistök gerist ekki neitt. Ekkert breytist.

Reyndar skil ég ekki þessa miklu viðkvæmni hv. þm. við ræðu minni sem var mjög hógvær. Það er eins og ég hafi stungið á einhverju kýli. Hv. þm. verður svo æstur yfir því og talar um kostnað landsbyggðarþingmanna. Ég hef aldrei gagnrýnt þann kostnað. Ég mundi gjarnan vilja styðja það að landsbyggðarþingmenn gætu verið tvær helgar heima hjá sér, að sjálfsögðu. Ég hef aldrei gagnrýnt þann kostnað.

Hins vegar benti ég á þá rökleysu sem fælist í því að sú stofnun sem heyrir undir Alþingi endurskoði starfsemi þess.