Verðmætaaukning sjávarfangs

Fimmtudaginn 07. nóvember 2002, kl. 13:43:59 (1206)

2002-11-07 13:43:59# 128. lþ. 25.94 fundur 232#B verðmætaaukning sjávarfangs# (umræður utan dagskrár), SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 128. lþ.

[13:43]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Skýrslur skapa ekki peninga. Það gerir fólk. Það er hins vegar skylda stjórnvalda að hafa hugann við hvernig skapa megi sem mest verðmæti úr sameiginlegri auðlind okkar.

Þessi skýrsla ,,Aukið verðmæti sjávarfangs`` ber vissulega þekkilegt nafn. En hún er, herra forseti, samansafn af sjálfsögðum hlutum sem reglulega er hvatt til hér á Alþingi, t.d. að efla menntun í sjávarútvegi og auka styrki til rannsókna. Fátt nýtt í því. Að hinu leytinu, herra forseti, er hún afturhvarf til fortíðar að stórum hluta, til fimm ára áætlana, miðstýringar og ríkisstyrkja. Yfir öllu svífur sá andi að sjávarútvegurinn sé ekki burðugri og betur mannaður en svo að best sé að stjórnvöld hafi vit fyrir honum, honum sé hvorki treystandi til að finna sóknarfæri án stuðnings né til að finna nýja markaði án stuðnings. Ónei, stjórnskipaðar nefndir skulu það vera. Fimm ára áætlanir og ríkisstyrkir. Ég velti því fyrir mér, herra forseti, hvort ráðherrann er í raun jafngagnrýnislaus á þennan texta og fram kom hér í máli hans. Eða er hann einungis að spila með fyrirspyrjanda? Bara eitt dæmi:

Tillaga 3 er t.d. um stofnun markaðs- og sölufyrirtækis til að sjá um sölu á sölu á tilteknum afurðum. Vísað til þess að framleiðendur gætu þá gert einkasölusamning við hið nýja fyrirtæki. Hvaðan skyldu nú fyrirmyndirnar vera sóttar? Jú, þær eru taldar upp. Öll gömlu einkasölusamtökin. Stefnan er sem sagt sett á fortíðina og rökstuðningurinn sóttur í gærdaginn.

Við höfum, herra forseti, á síðustu árum verið að aflétta því ástandi að tiltekin sölusamtök hafi einokunarrétt á útflutningi tiltekinna sjávarafurða. Það voru leifar frá fortíð skömmtunar og helmingaskipta sem við væntum að væri að baki. En nei, ekki alveg, eða hvað? Frjálst fiskverð, fiskmarkaðir, viðskiptafrelsi og ný fjarskipta- og flutningstækni hafa gjörbreytt öllum möguleikum fyrirtækja í sjávarútvegi. Það eru þær breytingar sem við eigum að byggja á til framtíðar. Hitt er fáheyrt, herra forseti.