Verðmætaaukning sjávarfangs

Fimmtudaginn 07. nóvember 2002, kl. 13:53:45 (1210)

2002-11-07 13:53:45# 128. lþ. 25.94 fundur 232#B verðmætaaukning sjávarfangs# (umræður utan dagskrár), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 128. lþ.

[13:53]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Samfylkingin telur að ákaflega mörg sóknarfæri séu ónýtt innan hins hefðbundna sjávarútvegs. Þess vegna biðum við lengi eftir umræddri skýrslu. Ég verð hins vegar að segja að þegar fjallið loksins tók jóðsóttina þá fæddist bara lítil mús. Ég varð fyrir talsverðum vonbrigðum með skýrsluna. Hún er uppfull af alhæfingum. Hvergi er bent á neinar sértækar leiðir til þess að nýta þau sóknarfæri sem blasa við augum þegar kafað er svolítið í innviði sjávarútvegsins.

Efni skýrslunnar, vinnutökin og þær örfáu handtæku hugmyndir sem þar koma fram, herra forseti, virðast líka að mestu leyti teknar upp úr skýrslu sem var unnin í Noregi um nákvæmlega þetta sama. Meira að segja tillagan um hinn sérstaka rannsóknar- eða þróunarsjóð, sem lagður er til í þessari skýrslu og á að fjármagna með 0,3% álagi á útflutningsverðmæti sjávarafurða, er tekin þaðan.

Ég læt vera að fjalla um fiskeldið, herra forseti, því það er ákaflega almenn umfjöllun. En mig langar aðeins að nefna örfá atriði um hefðbundinn sjávarútveg, þar sem mér finnst að nefndarmönnum hafi algerlega yfirsést augljós sóknarfæri.

Ég sé t.d. hvergi fjallað ítarlega um möguleikann á því að auka verulega virði uppsjávarafla með því að hætta að nota hann til bræðslu, en einhenda sér í þær rannsóknir sem þarf til þess að búa til úr honum hágæðaprótein sem stundum er kallað gull framtíðarinnar. Á þetta er ekki minnst í skýrslunni, en þar er drepið á nauðsyn þess að auka virði uppsjávarafla í einni línu.

Ég nefni líka, herra forseti, vannýttar tegundir og ætla þó ekki að fara að tala um þær sem við tölum oftast um, eins og búra, blálöngu, gulllax, litla-karfa, háfa, ýmsa hákarla, slétthala og langhala, heldur ætla ég að leyfa mér að benda á þau miklu ónýttu verðmæti sem er að finna í því sem ég kalla miðsjávarteppið, þar sem er þykkt lag af 60 tegundum fiska á bilinu frá 400 metra dýpi niður á 800 metra dýpi. Þetta er líka gull framtíðarinnar, herra forseti. Þetta eru bræðslufiskar framtíðarinnar. En hvernig stendur á því að ekki er minnst á þetta? Og hvernig stendur á því að hæstv. sjútvrh. hefur engu fjármagni varið til þess að rannsaka þetta? Þó hefur Samfylkingin bent honum á þetta.