Verðmætaaukning sjávarfangs

Fimmtudaginn 07. nóvember 2002, kl. 13:56:19 (1211)

2002-11-07 13:56:19# 128. lþ. 25.94 fundur 232#B verðmætaaukning sjávarfangs# (umræður utan dagskrár), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 128. lþ.

[13:56]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Sú skýrsla sem hér er tekin til umfjöllunar að frumkvæði hv. þm. Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, Árna Steinars Jóhannssonar, er athyglisverð fyrir margra hluta sakir. Eins og fram hefur komið gefur hún tilefni til bjartsýni ef vel er á málum haldið. Í skýrslunni kemur fram að hægt er að auka verðmæti sjávarfangs úr 130 milljörðum kr. í 240 milljarða á næstu tíu árum, en þá þarf að halda vel á málum. Í skýrslunni er lögð áhersla á mikilvægi vistvænna veiða og að vel sé farið með það sem aflast.

Hv. þm. Árni Steinar Jóhannsson lagði áherslu á samhengið á milli skynsamlegrar nýtingar sjávarfangs annars vegar og þess fiskveiðistjórnarkerfis sem við búum við. Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hefur lagt fram ítarlegar og mjög vel útfærðar tillögur, annars vegar um hvernig efla megi vistvænar strandveiðar og einnig um hvernig fyrna eigi það kvótakerfi sem við nú búum við á næstu 20 árum. Við höfum orðið vör við það að þær tillögur Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs hafa fengið góðan hljómgrunn, ekki aðeins innan sjávarútvegsins að undanskildum kvótahöfunum sjálfum, heldur í þjóðfélaginu almennt.

Annars er það ekki aðeins vegna tengslanna á milli skynsamlegra veiða annars vegar og þess fiskveiðistjórnarkerfis sem við búum við að nú er nauðsynlegt og kannski aldrei brýnna að taka kvótakerfið til skoðunar og fyrna það, en það sem nú er að gerast með sölu bankanna er einmitt það að eignarhaldið á auðlindum þjóðarinnar er að færast í nýjar hendur og hugsanlega út fyrir landsteinana. Kvótinn er veðsettur í bönkunum, í Búnaðarbankanum og í Landsbankanum, National Bank of Iceland, en sá banki er nú til sölu og með öllu því sem þar fylgir, þar með óveiddum sjávarafla.