Afdrif listaverka í Landsbanka og Búnaðarbanka

Fimmtudaginn 07. nóvember 2002, kl. 14:09:59 (1216)

2002-11-07 14:09:59# 128. lþ. 25.95 fundur 233#B afdrif listaverka í Landsbanka og Búnaðarbanka# (umræður utan dagskrár), viðskrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 128. lþ.

[14:09]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Við breytingu ríkisbanka í hlutafélög tóku viðkomandi hlutafélög yfir allar eignir og skuldir bankanna. Þannig tóku hlutafélögin yfir listaverk bankanna. Þannig urðu listaverkin hluti af eignum hlutafélaganna. Þær eignir ásamt væntingum um framtíðarafkomu þeirra standa á bak við gengi hlutafjár í félögunum.

Nú er verið að selja hluta hlutafjár í hlutafélögunum sem hafa verið á skipulegum verðbréfamarkaði í fjögur ár. Því er ekki verið að selja hluta af eignum félaganna heldur hlutafé í félögunum í heild. Félögin eiga listaverk en ekki einstakir hluthafar. Ekki væri því hægt að undanskilja listaverk við sölu ríkisins á hlutafé sínu í bönkunum, ekki frekar en aðrar eignir sem bankarnir eiga. Það væru í raun svik gagnvart félaginu og öðrum hluthöfum.

Hafa verður í huga í þessu sambandi að ríkið er ekki eini hluthafinn í viðkomandi félögum. Ríkið og bankarnir eru ekki eitt. Ef ríkið vildi ekki að listaverk þessi fylgdu félögunum þyrfti það í raun að kaupa verkin. Í raun hefur ekkert breyst á síðustu mánuðum í þessum efnum. Sala á málverkum hefði alltaf farið fyrir stjórn en ekki ráðherra, rétt eins og t.d. salan á VÍS.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson hafði uppi nokkuð stór orð og nánast ásakaði ríkisstjórnina um að hún hefði notað þessi listaverk sem einhvers konar beitu við sölu á hlut ríkisins í bönkunum, sem er náttúrlega algjörlega út í hött.

Ég get að lokum sagt að ég skil það í sjálfu sér ósköp vel að fólkið í landinu beri ákveðnar tilfinningar til þessara virðulegu stofnana, Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf. Hið sama gildir eflaust um hv. þm. en ég er sannfærð um að nýir eigendur láti sér ekki detta í hug að selja þessi listaverk úr bönkunum. Þeir vilja að sjálfsögðu eiga gott samstarf við viðskiptavini sína. Þegar á allt er litið mun það ekki hafa í för með sér neinar breytingar gagnvart almenningi þó að nú skuli ríkið draga sig út úr þessum rekstri. Ég vil gjarnan sjá þessi listaverk áfram þegar ég heimsæki þessarar stofnanir, enda er hluti þeirra raunverulega fastur við stofnanirnar og það eru ekki sístu verkin.