Afdrif listaverka í Landsbanka og Búnaðarbanka

Fimmtudaginn 07. nóvember 2002, kl. 14:15:03 (1218)

2002-11-07 14:15:03# 128. lþ. 25.95 fundur 233#B afdrif listaverka í Landsbanka og Búnaðarbanka# (umræður utan dagskrár), menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 128. lþ.

[14:15]

Menntamálaráðherra (Tómas Ingi Olrich):

Herra forseti. Það hefur aukist mjög nú á síðari árum að fyrirtæki taki þátt í að efla menningarlíf þjóðarinnar með því að festa kaup á listaverkum og með því að styrkja menningarstofnanir. Í þessu máli skiptir öllu að það er ekki sáluhjálparatriði að ríkið eigi þau verk sem hér er um að ræða, enda eiga hlutafélögin þau, það sem skiptir mestu máli er að vel sé að safninu staðið, að það sé aukið með áframhaldandi listaverkakaupum eins og hér var minnst á áðan og að þau verk verði gerð aðgengileg fyrir almenning. Hægt er að gera það á ýmsan hátt. Það er t.d. hægt að gera það með því að almenningur fái greiðari aðgang með því að bankarnir láni verkin til sýninga í Listasafni Íslands og öðrum listasöfnum. Það er mjög mikilsvert að listasöfnin hafi aðgang að málverkum í opinberri eigu og í einkaeigu. Og hægt er að stórauðvelda aðgang almennings að þeim verkum með þeim hætti að þau verði ekki einungis til sýnis í bönkunum, heldur verði þau lánuð í söfnin og gerð þannig almenningi aðgengilegri og þá verði hægt að veita um þau þann fróðleik sem listasöfnin hafa nú lagt sig fram um að veita.

Ég held að það sé mjög skýrt í augum alls almennings að listasöfnin hafa verið að auka sinn slagkraft í sýningum og sumarið 2002 er sennilega besta dæmið um það hversu almenningur hefur fengið góðan aðgang að vönduðum málverkasýningum. Og hægt er að tryggja þetta fullkomlega með því að bankarnir opni verk sín og láni söfnunum þau til þess að upplýsa almenning og veita honum aðgang að þessum merku menningarverðmætum.