Afdrif listaverka í Landsbanka og Búnaðarbanka

Fimmtudaginn 07. nóvember 2002, kl. 14:21:09 (1221)

2002-11-07 14:21:09# 128. lþ. 25.95 fundur 233#B afdrif listaverka í Landsbanka og Búnaðarbanka# (umræður utan dagskrár), ÓÖH
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 128. lþ.

[14:21]

Ólafur Örn Haraldsson:

Virðulegi forseti. Með hlutafjárvæðingu bankanna hurfu þjóðargersemar úr höndum almennings og við verðum að viðurkenna að við gættum ekki nógu vel að okkur, hvorki við hér sem erum á þingi, né heldur þeir sem um þessa sölu höfðu að segja. Ég held að þarna hafi orðið ákveðin mistök sem engum var í huga þegar bankarnir voru seldir.

Ég tel lögfræðihlið þessa máls nokkuð ljósa þó ég sé ekki lögfræðingur. Ég tel það nokkuð ljóst að hlutafélögin eiga þessi listaverk og að eina leiðin til þess að þau listaverk megi koma í hendur þjóðarinnar að nýju sé sú að eigendur hlutafélaganna, eigendur bankanna, hvort sem þeir eru hinir eldri eigendur eða þeir sem eru nú að kaupa, sýni þá höfðingslund að afhenda íslensku þjóðinni þessi ómetanlegu listaverk að gjöf og munu þá af því hafa hinn mesta sóma og þjóðin mun njóta vel og meta.

Það er alveg ljóst að bankarnir keyptu þessi listaverk, ekki af hreinni ágirnd heldur fyrst og fremst vegna þess að þeir litu á sig sem fulltrúa almennings. Bankarnir nutu margvíslegra forréttinda, bæði beint og óbeint, og voru þess vegna að kaupa þessi listaverk fyrir okkur öll.

Upphaf þessa máls er einmitt frá almenningi. Það var kaupmaður í Bankastræti sem kom að máli við mig og vakti athygli mína á málinu og ég kom því til Morgunblaðsins og það blað hefur hvað eftir sannað sýnt að það vill einmitt gæta að verðmætum sem eru hafin yfir peningasjónarmið og varða heill og hamingju þjóðarinnar á menningarsviði.