Afdrif listaverka í Landsbanka og Búnaðarbanka

Fimmtudaginn 07. nóvember 2002, kl. 14:23:30 (1222)

2002-11-07 14:23:30# 128. lþ. 25.95 fundur 233#B afdrif listaverka í Landsbanka og Búnaðarbanka# (umræður utan dagskrár), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 128. lþ.

[14:23]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Mér finnst þetta ákaflega dapurlegt mál. Mér finnst ákaflega dapurlegt að hlýða á mál hæstv. ráðherra og ekki síst hæstv. menntmrh., bæði koma þau hingað og reyna að verja þetta mál. Það liggur þó í augum uppi að hér var að vísu ekki um ásetningssynd að ræða, heldur handvömm. Það að þetta er handvömm birtist í því að í samtölum við menn sem komu að sölunni kemur fram að það var aldrei gengið í það að meta þetta listaverkasafn til fjár. Í þeim upplýsingum sem fyrir liggja kemur fram að þetta eru u.þ.b. 900 verk hjá Búnaðarbankanum. Þetta eru verk eftir stærstu tindana í íslenskri myndlistarsögu, verk sem byrjað var að kaupa snemma á síðustu öld og það er alveg ljóst að í einkaeigu er hvergi hægt að finna jafnsamfellda sögu samankomna á einum stað. Það út af fyrir sig eykur enn verðgildi safnsins langt umfram samanlagða summu einstakra verka. Ætli það megi ekki slá á það, herra forseti, að hérna kunni að vera verðmæti sem nálgast það að vera heill milljarður?

Þegar við horfum til þess að verið er að selja hlut bankans fyrir á annan tug milljarða, þá er alveg ljóst að þarna hafa menn vegna handvammar afhent eigur sem í reynd fela það í sér að verðið á bankanum lækkar um kannski fast að milljarði. Ég held að sé alveg ljóst, eins og komið hefur fram í þeim upplýsingum sem fyrir liggja, að menn gerðu sér ekki grein fyrir þessu. Það er hægt að koma hingað eins og hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson og segja: Ja, eigum við ekki að biðja núverandi eigendur um að gefa þjóðinni þetta aftur? En er með réttu hægt að ætlast til þess að menn sem eru að kaupa svona eign gefi sem svarar heilum milljarði aftur? Ég held að það þurfi ákaflega stórt hjarta og ég ætla ekki að útiloka að svo sé.

Handvömmin birtist auðvitað í því að menn gleymdu þessu og fóru ekki sömu leið þegar fyrirtækin voru gerð að hlutafélagi og gert var þegar Pósturinn var gerður að hlutafélagi, en þá var ákaflega verðmætt og einstætt frímerkjasafn undanþegið. Ég spyr hæstv. ráðherra: Hvers vegna var það ekki gert við málverkin?