Afdrif listaverka í Landsbanka og Búnaðarbanka

Fimmtudaginn 07. nóvember 2002, kl. 14:25:51 (1223)

2002-11-07 14:25:51# 128. lþ. 25.95 fundur 233#B afdrif listaverka í Landsbanka og Búnaðarbanka# (umræður utan dagskrár), GunnB
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 128. lþ.

[14:25]

Gunnar Birgisson:

Virðulegi forseti. Málverk sem og aðrar eignir eru eignfærðar í viðkomandi fyrirtæki, banka í þessu tilfelli, sem við erum að ræða um hér í dag. Málverkin eru færð í bókhaldi á nafnvirði og sjálfsagt erfitt að meta markaðsvirði þessara verka sem fer eftir ástandi efnahags á Íslandi á hverjum tíma. Mér þykir hv. þm. Össur Skarphéðinsson kjarkaður að geta fullyrt það að þessi málverk séu eins milljarðs virði. Það eru nú aðrar tölur heldur en ég hef fengið. (Gripið fram í: Hvaða tölur?)

Þegar banki eða fyrirtæki er selt fylgja eignirnar eðlilega með. Og að undanskilja eitthvað við söluna, er eins og að selja bíl án hjóla.

Það hefur verið virðingarvert hvað bankarnir hafa verið öflugir að styðja við listir í landinu með kaupum á listaverkum árum saman og ber að þakka það. Nú er þegar búið að selja annan ríkisbankann og sala á hinum á lokastigi svo þessi umræða virðist vera heldur seint á ferðinni. Þegar fyrirtæki er selt fylgja venjulega eignirnar með eins og áður sagði, en að undanskilja eignir svo sem málverk, fágæt húsgögn og fleira, er annað mál. Slíkt ætti að gera áður en viðkomandi fyrirtæki er hlutafélagavætt eins og þáverandi samgrh., Halldór Blöndal, gerði með fágætt frímerkjasafn Pósts og síma, sem á nú að fara til vörslu á Þjóðskjalasafninu.

Ásakanir um misferli þeirra sem sjá um sölu bankanna eru algjörlega óviðeigandi og hv. þingmönnum sem halda því fram til minnkunar.