Afdrif listaverka í Landsbanka og Búnaðarbanka

Fimmtudaginn 07. nóvember 2002, kl. 14:34:16 (1227)

2002-11-07 14:34:16# 128. lþ. 25.95 fundur 233#B afdrif listaverka í Landsbanka og Búnaðarbanka# (umræður utan dagskrár), viðskrh.
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 128. lþ.

[14:34]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Ég held að hún hafi í sjálfu sér verið ágæt og kannski nauðsynleg. Ég neita því þó ekki að það sem mér er efst í huga núna er að einkavæðingin sem slík hlýtur að hafa tekist mjög vel vegna þess að það er ekki beðið um utandagskrárumræðu um sölu bankanna, heldur eingöngu um listaverkin. Ég er mikill listunnandi, það skal tekið fram svo að það sé á hreinu. En hv. þm. Ögmundur Jónasson sá enga ástæðu til þess að taka upp umræðu um sölu bankanna og það segir mér að salan sé vel heppnuð og það gleður mig mjög. (ÖJ: Er ályktunargáfan þessi?)

Það er talað um að þessi verðmæti séu í höndum fárra aðila. Þá verður að hafa það í huga að það eru tugir þúsunda sem eiga Landsbankann, og væntanlega Búnaðarbankann líka innan skamms. Það er því ekki rétt að tala um fáa aðila, þvert á móti mjög villandi að mínu mati. Mér finnst þetta engan veginn dapurlegt mál sem þurfi að tala um með sorgartón. Við erum að selja þessar stofnanir, og listaverkin fylgja þeim. Þeir sem tala um að þarna hafi orðið mistök hljóta þá að eiga við það að þegar bönkunum var breytt í hlutafélög hefði átt að hreinsa öll listaverk út úr bönkunum. Hefðu hv. þm. virkilega viljað að við hefðum komið inn í bankana sl. fjögur ár án þess að þar hefði verið eitt einasta listaverk? Ég held að það sé mikilvægt fyrir almenning sem sækir þessar stofnanir heim að þar fái þessi listaverk að hanga uppi áfram. Þannig njótum við þeirra. Ég treysti þeim einstaklingum sem nú verða brátt kjölfestufjárfestar í Landsbankanum, og sennilega mun eins verða um Búnaðarbankann, að þeir muni hafa skilning á þessu og veita almenningi þá unun áfram að sjá verkin.