Uppsagnir eða mismunun í starfi vegna aldurs

Fimmtudaginn 07. nóvember 2002, kl. 14:45:31 (1229)

2002-11-07 14:45:31# 128. lþ. 25.4 fundur 34. mál: #A uppsagnir eða mismunun í starfi vegna aldurs# þál., ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 128. lþ.

[14:45]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Ég ætla bara að hafa örfá orð um þann hluta þessarar þáltill. sem fjallar um það sem kallað er æskudýrkun og minna menn á gildi þess að vinna af stolti og virðingu með öllum aldurshópum innan fyrirtækja og stofnana. Ég tala af mikilli reynslu sem forstöðumaður á stórum vinnustað. Ég kappkostaði ávallt að gæta þess að menn fengju að njóta starfsorku sinnar, þekkingar og reynslu á viðkomandi vinnustöðum, eins lengi og hægt var.

Ég tel, virðulegu forseti, að umræðan um æskudýrkun sé nauðsynleg. Þó að ungir og ferskir starfskraftar séu nauðsynlegir hverju fyrirtæki er jafnnauðsynlegt að hafa reynslu og þekkingu þeirra sem eldri eru inni á öllum vinnustöðum. Þess vegna er þessi þáltill. mjög mikilvæg.

Það þarf að komast inn í umræðuna að það er ekki sjálfsagt að úrelda fólk eins og hverjar aðrar vélar þegar það er komið á miðjan aldur eins og hefur viljað brenna við hjá ýmsum stjórnendum fyrirtækja þessa lands og þótt víðar væri leitað. Þess vegna vil ég árétta það að þessi þáttur þáltill., um æskudýrkun og samspil aldursflokkanna á vinnustað, er mjög mikilvægur þáttur umræðunnar sem verður að fara fram.