Rannsóknir á þorskeldi

Fimmtudaginn 07. nóvember 2002, kl. 15:09:29 (1233)

2002-11-07 15:09:29# 128. lþ. 25.5 fundur 35. mál: #A rannsóknir á þorskeldi# þál., PBj
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 128. lþ.

[15:09]

Pétur Bjarnason:

Herra forseti. Ég vil taka undir með hv. flm. um nauðsyn þess að móta stefnu í þorskeldismálum og eldismálum okkar yfirleitt. Það er löngu tímabært. Framtíðin liggur í fiskeldi og fiskeldi er þegar farið að stýra mörkuðum og það er reyndar ekkert alveg nýtt, slík þróun hefur verið fyrirsjáanleg alllengi, a.m.k. á annan áratug. Segja má að það sé e.t.v. nokkur sofandaháttur að hafa ekki stutt betur við þær tilraunir sem hér hafa farið fram og reynt að stýra betur þeirri starfsemi sem hefur farið fram með margvíslegu eldi hérlendis undanfarinn áratug. Mistökin sanna það að þörf hefði verið á að gera það fyrr og gera það betur.

Sem dæmi um vöxt í þessari grein má upplýsa að lax á Bandaríkjamarkaði var um 82 þús. tonn árið 1990, en árið 2001 261 þús. tonn, þ.e. um 300% aukning á eldislaxi á Bandaríkjamarkaði. Síðan er annað sem gerst hefur, að aðrar tegundir sem ekki höfðu heyrst nefndar áður eru komnar í stað hinna hefðbundnu og má nefna fisktegundir sem bera nöfn eins og leirgedda og beitarfiskur.

Þorskneysla hefur dregist saman á sama tíma á Bandaríkjamarkaði aðallega vegna lítils framboðs og einnig vegna þess að þar sem þorsk hefur skort hefur eldisfiskur af ýmsu tagi komið í stað hans. Ekki er alveg fyrirsjáanlegt hvaða afleiðingar þetta getur haft, e.t.v. verður veitt sjávarfang að einhverju leyti verðmætara þegar það verður orðið fágætt, en að sama skapi má líka reikna með því að verð á eldisfiski lækki og þess vegna verði samkeppni við hann á margan hátt mjög erfið.

Í skýrslu stýrihóps um aukið verðmæti sjávarfangs er stuttur kafli um fiskeldi. Ég hefði kosið að sjá þann kafla lengri og mun ítarlegri og þar væri fjallað meira um framtíðarmöguleika þessarar greinar og settar fram raunhæfar tillögur um þau mál. Þar er þó talið rétt að leggja meiri áherslu á þorskeldi en laxeldi, en stefnan í þeim málum er enn þá óunnin.

Ef litið er á þorskeldi og þróun þess á undanförnum árum, þá hófst það með því að nokkrir hugsjónamenn, einkum á Vestfjörðum og að ég held á Eskifirði einnig, hófu að safna smáfiski sem náðist lifandi, fluttu hann í eldiskvíar inni á fjörðum og ólu hann þar áfram. Þær tilraunir voru eins og gefur að skilja gerðar við afar misjafnar aðstæður án skilnings eða athygli yfirvalda, sem litu á þetta sem marklausan leik í upphafi og jafnvel var það litið hornauga að taka smáfiskinn til slíkra nota. Sem betur fer hefur þetta þokast til betri vegar þó hægt fari. Og enn er það svo að einstök fyrirtæki og einstaklingar bera hitann og þungann af því uppbyggingarstarfi. Stjórnvöld fara sér hægt en eru þó búin að viðurkenna þetta starf með úthlutun sérstakra heimilda til eldisins. Meira þarf þó til og er vonandi að augu manna fari að opnast fyrir nauðsyn framtíðarsýnar í eldismálum sjávardýra yfirleitt því hér eru möguleikar nánast ótæmandi en markvissa stefnumótun vantar.

Hafrannsóknastofnun hefur staðið fyrir þorskeldistilraunum á Stað í Grindavík og verið brautryðjandi í að stunda klak og seiðaeldi í þorski. Þarna er unnið mjög dýrmætt rannsóknastarf og þrátt fyrir ýmsa örðugleika sem ávallt má búast við á langri ferð mun þetta starf verða gott innlegg í þróun þessara mála.

Hraðfrystihúsið Gunnvör á Ísafirði er að láta gera tilraunir með að veiða mjög smáan þorsk, allt niður í þorskseiði, með sérstakri nót. Þetta er líka afskaplega áhugaverð tilraun sem er fróðlegt að sjá hvort ekki muni skila árangri og jafnvel brjóta blað í þorskeldinu þar sem með því verður yfirstigið mjög erfitt þrep í eldinu, sem er klak og fyrsta eldi þorskseiðanna en þar hefur helsti vandinn verið að finna heppilegt fóður.

Með skýrslu stýrihópsins er fylgiskjal, viðauki I, Stefnumörkun í rannsóknar- og þróunarvinnu eftir Valdimar Gunnarsson. Þar kemur fram að arðsemisútreikningar bendi til þess að matfiskeldi sé óarðbært vegna þess að verð á seiðum, og þá er ég að tala um þorskeldi, er allt of hátt, en taldar eru líkur á að þeir starfshættir sem hér hafa verið við lýði, þ.e. að fanga fisk og ala áfram, geti borið sig. Þarna virðist sem áðurgreindar tilraunir sem gerðar hafa verið á vegum Gunnvarar hf. geti skipt sköpum ef þær lánast. Nauðsynlegt er að lagt verði meira kapp á rannsóknir en verið hefur og til þess varið fjármagni með hliðsjón af fyrrgreindum útreikningum og nauðsyn þess að komast yfir þann þröskuld.

Þá er áhersla lögð að ná tökum á eldi í sjókvíum og að kynbæta þorsk með það að markmiði að ná sem mestum vaxtarhraða við lágan sjávarhita svo Ísland geti verið samkeppnishæft við önnur lönd. Það er og talið víst að hér við land séu margir þorskstofnar sem alast upp við misjafnar aðstæður. Vafalaust eru einhverjir þeirra betur fallnir til áframeldis í köldum sjó en aðrir.

Hv. flm. nefndi að þorskeldi væri byggðamál sem ég tek undir og sagði jafnframt að ekki væri hægt að flytja þorskeldið. En það skyldi nú vera að menn seildust ekki þangað líka eins og víðar? Það kemur nefnilega afskaplega furðuleg staðhæfing inn í þessa ágætu skýrslu undir liðnum Eldistækni. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta: ,,Mikilvægt er að unnið verði að því að færa eldið úr kaldari sjó við norðanvert landið í heitari sjó við sunnanvert landið.`` Ég bið menn að taka eftir þeirri setningu. Þessi staðhæfing er svo furðuleg að engin leið virðist vera að átta sig á tilgangi hennar. Frumkvæði að þessu eldi hefur verið um allt norðanvert landið frá Vestfjörðum að Austfjörðum og það er mjög sérkennilegt að sjá staðhæfingu á borð við þessa í skýrslu á vegum hæstv. sjútvrh.

[15:15]

Á það að vera sjálfgefið að allur fiskafli fylgi því lögmáli sem dauð hönd kvótakerfisins hefur leitt yfir landsbyggðina sem þegar hefur verið rúin rétti sínum til að sækja sjóinn nema í mjög takmörkuðum mæli? Á enn að höggva í sama knérunn? Eru þetta skilaboðin til þeirra einstaklinga og fyrirtækja sem þó hafa þokað rannsóknum þetta á veg og eru að berjast fyrir framtíð þessarar greinar? Ekki með stuðningi yfirvalda nema að mjög óverulegu leyti, heldur fyrst og fremst að eigin frumkvæði, djörfung og dugnaði. Ef þetta er svo eru stjórnvöld á villigötum í þessu eins og fleiru í sjávarútvegi.

Í fyrrnefndri skýrslu kemur fram sú skoðun nefndarmanna að fiskeldi sé enn óverulegur hluti af verðmæti sjávarfangs þrátt fyrir margar tilraunir og langan tíma. Það þarf raunar ekki að koma neinum á óvart sem hefur fylgst með því hvernig fiskeldi hefur gengið fyrir sig á undanförnum áratug. Fiskeldi hefur verið keyrt áfram að verulegu leyti án fyrirhyggju eða stefnumörkunar. Frumkvöðlarnir í laxeldinu fóru af stað með miklar væntingar um markaði og söluverð á laxi sem síðan hríðféll. Rannsóknir og stefnumörkun var ekki fyrir hendi og áföll dundu yfir þá grein eitt af öðru. Lánveitingar voru miklar en allt of ómarkvissar og ekki nægilega reynt að veita stuðning með rannsóknum og ráðgjöf sem var sárlega þörf fyrir. Þetta er of löng saga til að rekja hana hér.

Hins vegar virðast ófarir laxeldisins svífa eins og dimmur skuggi yfir lánastofnunum og þar með taldri Byggðastofnun. Fjölmörg dæmi má finna um það að stöðvar sem upphaflega voru reistar sem laxeldisstöðvar en hafa nú hafið bleikjueldi sem gengur vel, reka sig á vegg. Þeim er hjálpað við að komast á hnén, koma upp stofni í stöðvunum en þegar síðasti áfanginn er fram undan þá kippa menn að sér höndunum og neita stuðningi. Afleiðingin er fóðurskortur, eldið verður ekki markvisst og stórlega dregur úr vexti. Þetta getur ekki leitt til annars en að reksturinn mun að lokum stöðvast. Ekki verja bankar og Byggðastofnun fjármuni sína með því móti því að slíkt endar ekki öðruvísi en með nýjum gjaldþrotum.

Allt ber að sama brunni, stefnumótun í eldismálum vantar, það þarf að horfa til framtíðar og verja þarf verulegum fjármunum til að koma þessari grein á legg.