Rannsóknir á þorskeldi

Fimmtudaginn 07. nóvember 2002, kl. 15:19:06 (1235)

2002-11-07 15:19:06# 128. lþ. 25.5 fundur 35. mál: #A rannsóknir á þorskeldi# þál., PBj (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 128. lþ.

[15:19]

Pétur Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þessar skýringar og tek undir þær vonir sem hv. flm. bindur við þetta því vissulega væri það afleitt ef svo færi að þetta yrði flutt eitthvert þar sem einhverjir hugsanlegir hagsmunir ráða, en e.t.v. ekki þeir bestu.

En af því ég nefndi fleira eldi en þorskeldi, þá er rétt að vekja athygli á því að það er ekki bara í laxeldi, bleikjueldi og þorskeldi sem vantar stefnumörkun. Kræklingaeldi hefur fengið allt of litla umfjöllun. Frumkvöðlastarf hefur verið í gangi sem fær því nær engan stuðning og á mjög í vök að verjast. Þar er um að ræða byggðamál, þar er um að ræða nýtingu auðlinda sem ekki með nokkru móti virðist vera hægt að opna augu stjórnvalda fyrir að þurfi rannsóknir, stuðning og fjármagn til að það geti farið að skila arði, en það getur skilað gífurlegum arði. Það er allt sem bendir til þess að svo geti orðið. Ég vona svo sannarlega að þar verði stefnubreyting á. Ég vil taka undir það að fiskeldi er og verður mikið byggðamál og er mjög hagstætt fyrir byggðirnar að hafa það, sérstaklega þegar aðrar stoðir eru allar að bresta hver af annarri.